139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur greinilega hæfileika til þess að geta hugsanlega gegnt stöðu utanríkisráðherra í framtíðinni. Ég er algjörlega sammála greiningu hv. þingmanns á því hver aðdragandinn var að því að Íslendingar fóru með þessum hætti til fundarins í Brussel í fastanefndinni og tóku þessa ákvörðun, og sömuleiðis hvað lá til grundvallar því að Atlantshafsbandalagið tók að sér samræmingarhlutverk í Líbíu. Markmiðið er alveg skýrt. Við viljum aðstoða það fólk sem þar er kúgað til að geta komið fram vilja sínum í frjálsum kosningum.

En ég spyr hv. þingmann: Hvað á hann við þegar hann segir að hann vilji að ákvörðunin sé tekin með réttum hætti, ákvörðun af hálfu íslenskra stjórnvalda? Er hann að segja það við utanríkisráðherra að ég hafi tekið ákvörðun utan míns umboðs og þar með í heimildarleysi? Ég sem utanríkisráðherra fer með framkvæmdarvald sem er ekki partur af fjölskipuðu stjórnvaldi og meðan ég verð ekki viðskila við þingið og held trúnaði þess get ég tekið ákvarðanir sem þessar. Staðan var einfaldlega þannig að ég hafði leitað samráðs við þingið. Á fyrri hluta þessa máls höfðu verið tvær utandagskrárumræður um það. Sömuleiðis hafði verið leitað samráðs við utanríkismálanefnd og það kom ekkert fram sem benti til þess að þá væri andstaða við þetta mál í þinginu, þvert á móti. Hver einasti maður sem talaði í þinginu var sammála því sem ég sagði þá. Sumir vildu ganga lengra en ég. Það er rétt hjá hv. þingmanni, eins og hefur þegar komið fram hér, að sú ákvörðun var ekki rædd í ríkisstjórn. Það breytir engu um það að umboðið hafði ég.

Ef hv. þingmaður heldur því fram að ég hafi farið út fyrir heimildir mínar er hann líka að segja að ef ég hefði verið sammála afstöðu hans um að ég hefði ekki haft heimildina er það ósköp einfalt að núna væri Atlantshafsbandalagið ekki að samræma þessar aðgerðir í Líbíu. Það hefði ekki breytt nokkru um það að aðgerðirnar héldu áfram, sennilega hóflausari, vanstilltari og stjórnlausari, alveg eins og birtist á fyrstu dögunum. Þá er líka hv. þingmaður kominn á nákvæmlega sömu þúfu og hann sakar VG um að vera statt á vegna þess að ef ég hefði farið að því sem hv. þingmaður tæpir á hefði það ekki bara verið fallið til að veikja Atlantshafsbandalagið heldur til að veikja stöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins. Það verður hv. þingmaður að skilja. Ef hann er að segja að ég hafi verið umboðslaus verður hann að skýra það miklu betur.

Frú forseti. Til að svara svo þeirri einu spurningu sem kom fram hjá hv. þingmanni: Var þetta mál rætt í ríkisstjórn áður en ég veitti fastafulltrúa okkar heimild til að taka þá ákvörðun sem hann lýsti fyrir okkar hönd í fastaráðinu? Já, það var rætt í ríkisstjórn. Þá, alveg eins og í umræðunum hér, kom fram gagnrýni hjá ráðherrum Vinstri grænna. Það breytir engu um það að áður en ég tók mína endanlegu ákvörðun hafði ég í samræmi við lög farið í utanríkismálanefnd þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins var staddur og hann veit það jafn vel og ég að þegar þeim fundi lauk hafði ég enga ástæðu til að ætla að ég væri ekki fyllilega samstiga meiri hluta Alþingis. Þá miða ég við þá afstöðu sem kom fram hjá fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Þar voru auðvitað fulltrúar VG og lýstu afstöðu sinni þannig að það er algerlega ljóst að í þessu tilviki gætti ég þess að uppfylla lög. Ég ræddi þetta í ríkisstjórn, ég var búinn að ræða þetta í þinginu og það hafði ekkert komið fram sem benti til þess að ég hefði með einhverjum hætti orðið viðskila við Alþingi. Meðan sú staða er uppi er algerlega ljóst að ég hef fullt umboð til að taka þessa ákvörðun.

Ég er svo algjörlega sammála hv. þingmanni um að siðferðilega og pólitískt var þessi ákvörðun rétt. Ég vil hins vegar líka segja að ég er þeirrar skoðunar að það að NATO tók að sér þetta samræmingarhlutverk hefur dregið úr mannfalli. Það er alveg ljóst að mannfall almennra saklausra borgara hefur orðið miklu minna en nokkur gerði ráð fyrir. Ég bendi á að Gaddafí sjálfur sagði að tugþúsundir manna væru að falla. (Gripið fram í: Það var …) Nú segir hann 750.

Í seinni ræðu minni ætla ég síðan að taka þá fráleitu röksemd frá hv. þingmanni um að bera saman Líbíu og Írak. Það var lögleysa vegna þess að bak við það var engin (Forseti hringir.) ályktun öryggisráðsins eins og núna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)