139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar með talinn formaður hreyfingarinnar, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafa haldið því fram að ákvörðunin um að styðja við aðgerðir NATO í Líbíu hafi aldrei verið rædd í ríkisstjórn. Nú upplýsir hæstv. utanríkisráðherra að þetta mál hafi verið rætt í ríkisstjórn svo stöðugt vindur þetta mál upp á sig, enda hefur umræðan verið dálítið undarleg frá upphafi. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir á sínum tíma að hann hefði ekki haft neina vitneskju um þessa ákvörðun vegna þess að hann hefði verið staddur í Færeyjum. Í framhaldinu lýstu nokkrir fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því yfir að þeir fordæmdu ákvörðunina og hvernig að ákvörðunartökunni hefði verið staðið. Svo gafst tækifæri til þess að hafa áhrif á þessa ákvörðunartöku þegar kom að því að framlengja umboð NATO til aðgerða. En Vinstri hreyfingin – grænt framboð nýtti ekki þau tækifæri. Þetta hlýtur út af fyrir sig að vera áhyggjuefni þegar við erum með ríkisstjórn þar sem menn vita aldrei á hverju er von, hvorki utan stjórnarinnar né innan. (Gripið fram í.) Þegar menn taka síðan ákvarðanir í stórum málum leyfir hluti ríkisstjórnarinnar sér að firra sig ábyrgð á þeim ákvörðunum.

Hæstv. utanríkisráðherra leggur reyndar áherslu á að hann hafi einn og sér haft umboð til að taka þessar ákvarðanir vegna þess að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald og vísar í það að hann hafi tekið nokkurs konar stikkprufu í þinginu og ekki heyrt mikil andmæli við þá umræðu sem var búin að eiga sér stað hjá Sameinuðu þjóðunum. Sams konar umræða hafði að sjálfsögðu átt sér stað á Alþingi í aðdraganda ákvörðunarinnar um að veita einhvers konar stuðning við aðgerðir í Írak. Það hafði til að mynda verið rætt í utanríkismálanefnd. (Gripið fram í: Gott.) Ég heyri ekki annað á hæstv. utanríkisráðherra en að hann telji einstaka ráðherra (Forseti hringir.) hafa fullt umboð til að taka slíkar ákvarðanir.