139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Hvarvetna þar sem stríð geisa er sannleikurinn fyrsta fórnarlambið. Frásagnir og fréttir af því sem raunverulega gerist eru litaðar því að sínum augum lítur hver silfrið. Hitt er staðreynd að stríð eru alltaf og undantekningarlaust ógnvænleg og kosta fjölda mannslífa, limlestingar og margs konar áverka, líkamlega og andlega. Þar bera allir gerendur ábyrgð.

Fyrir okkur sem stöndum fjarri vettvangi er líklegast útilokað að setja okkur í spor þeirra sem búa við ógnarstjórn og einræði, daglega kúgun og ofbeldi, skort á lýðræði og sjálfsögðum mannréttindum. Fyrir skemmstu áttu fulltrúar í utanríkismálanefnd kost á að hitta að máli fulltrúa uppreisnarmanna í Líbíu. Þar gerði hann grein fyrir stöðu mála, bakgrunni uppreisnarinnar og hver líkleg þróun yrði á næstunni út frá sínu sjónarmiði. Þar fengum við sem fundinn sátum innsýn í þá mynd sem blasir við þeirri hlið, en eins og jafnan er það ekki eina hlið teningsins.

Þróun mála í ýmsum arabalöndum við Miðjarðarhaf og í Norður-Afríku veldur okkur öllum að sjálfsögðu miklum áhyggjum. Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið beini sjónum sínum að og styðji við mannréttinda- og lýðræðisbaráttu hvarvetna sem hún fer fram. Ríki heims mega ekki meðhöndla almenning sem berst fyrir grundvallarmannréttindum með mismunandi hætti eftir því hvaða hagsmunir annarra ríkja eru í húfi sem því miður er allt of oft tilfellið.

Með samþykkt sinni nr. 1973 setti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna skýran ramma um aðgerðir á vegum alþjóðasamfélagsins í Líbíu til að vernda líf almennra borgara og koma á flugbanni yfir landinu. Samþykktin var þó alls ekki óumdeild og margir telja að NATO sé nú komið út fyrir það umboð. Að mínum dómi væri beiting árásarþyrlna og hugmyndir um landhernað ótvírætt á skjön við samþykkt Sameinuðu þjóðanna.

Afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur verið öllum ljós allan tímann í þessum málum. Við styðjum ekki hernaðarbandalag. Það er trúverðug afstaða sem byggir á okkar friðarstefnu.