139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mér finnst þetta svolítið skringilegar umræður. Kannski finnur maður ekki mjög mikið fyrir samúð gagnvart því fólki sem á um sárt að binda í Líbíu. Mér sýnist þetta vera umræða til að reyna að koma höggi á Vinstri græna og utanríkisráðherra.

Mig langaði að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé tilbúinn til að taka upp ástandið í Sýrlandi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og NATO og kalla eftir einhverjum sambærilegum aðgerðum til varnar almenningi sem þar er felldur, settur í fangelsi og beittur pyndingum. Þá langaði mig jafnframt að beina augum hæstv. utanríkisráðherra að ástandinu í Jemen sem er mjög alvarlegt og að spyrja hvort ekki sé jafnframt tilefni til að beina sjónum að þátttöku Sádi-Araba gagnvart Barein.

Ég er enn og aftur mjög hugsi. Ég get ekki tekið afgerandi afstöðu til þess hvað er rétt og rangt í stríðinu gagnvart Líbíu. Ég heyrði í þessum ágæta manni í utanríkismálanefnd, fulltrúa uppreisnarmanna og þessarar „transnational government“, og fékk hans hlið en á sama tíma fannst mér óþægilegt að heyra hann gera lítið úr árásum á heimili fólks, þar á meðal heimili sonar og barnabarna Gaddafís. Ég held að aldrei nokkurn tímann séu skýrar línur í stríði en ég get hvorki sýnt þessum ákvörðunum utanríkisráðherra fullan stuðning né fullan mótþróa.