139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Illt skal með illu út reka, sagði hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Þýðir það að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ætli að fylkja sér á bak við hernaðaraðgerðir gegn Sádi-Arabíu, Sýrlandi, Barein, Íran og fleiri löndum þar sem verið er að myrða og limlesta saklaust fólk, jafnvel í skjóli stjórnmálaskoðana og þess háttar? Er það stefna Vinstri grænna og Samfylkingar að fara þá leið? Er það stefna hæstv. utanríkisráðherra að styðja eða leggja fram tillögur um að beitt verði sömu meðulum gegn þessum löndum og beitt er í Líbíu? Við hljótum að spyrja okkur að því.

Stefna Vinstri grænna og staða þeirra í þessu máli er vitanlega hlægileg. Vinstri græn eru gjörsamlega ótrúverðug þegar kemur að því að fjalla um utanríkismálastefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Hér er búið að rifja upp hvernig menn snerust í Evrópusambandinu og nú er verið að varpa sprengjum í Líbíu í boði þessarar ríkisstjórnar, í boði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. (Innanrrh.: … eini flokkurinn sem …) Það er nú þannig — og hæstv. innanríkisráðherra sem þenur sig gjarnan hér sem boðberi friðar ætti að hugsa til þess að í ríkisstjórn (Gripið fram í.) gat hann stöðvað það að sprengjum væri varpað á Líbíu. Innanríkisráðherrann, boðberi friðar, kaus að gera það ekki. Við vitum það öll og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði nákvæmlega það sem segja þarf í þessu máli hér áðan: (Gripið fram í.) Sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið, hæstv. innanríkisráðherra. Þar flúði innanríkisráðherra af vettvangi þegar kom að því að taka ákvarðanir um að varpa sprengjum á Líbíu. (Innanrrh.: Ósann…) Hann stóð ekki við stóru orðin, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) hann er ekki friðarins maður. (Forseti hringir.) Ráðherrann gat stöðvað málið í ríkisstjórn með því að beita neitunarvaldi, ráðherrann lagði að veði friðarboðskapinn sem hann hefur þanið sig yfir í þessum ræðustól svo árum skiptir. Því var skipt út fyrir eitthvað — og fyrir hvað, hæstv. innanríkisráðherra? Hvað fékk innanríkisráðherra að launum fyrir það að þegja um innrásina í Líbíu? (Innanrrh.: Ómerkilegt rugl.) Sömuleiðis.

(Forseti (KLM): Ég bið um ró í þingsalnum og hvet menn til að gefa þeim ræðumanni sem er í ræðustól hverju sinni tíma til að flytja mál sitt.)