139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vinnubrögðin í því máli sem við ræðum hér eru ekki boðleg af hálfu Alþingis. Þau eru ekki boðleg af hálfu framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar gagnvart minni hlutanum hér á þingi, ekki boðleg gagnvart þeim fjölmörgu umsagnaraðilum sem þurfa að tjá sig um málið og ekki boðleg gagnvart þeirri málefnalegu umræðu sem þarf að fara fram um lítil og stór mál. Ég efast um að það eigi sér mörg fordæmi ef nokkur hvernig hér er haldið á málum.

Það kvað við sáttatón í gær. Eftir nokkra langa fundi með umsagnaraðilum voru margir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna farnir að gera sér grein fyrir því að það þyrfti að ná sáttatón í þessi mál áður en lagt yrði inn í sumarið og það kvað við sáttatón. En það birtist hér friðarspillir þegar líða fór að lokum þingfunda í gærkvöldi. Það birtist friðarspillir, virðulegi forseti, þegar forsætisráðherra fór að sjást hér í þingsölum. Það leið ekki á löngu þar til ljóst varð (Forseti hringir.) að ófriður var orðinn. Það gengur friðarspillir laus hér á Alþingi, ég fullyrði það, virðulegi forseti, í þessu máli sem mörgum öðrum; (Forseti hringir.) og það er forsætisráðherra Íslands sem ég er að tala um.