139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þau tíðindi sem hv. fulltrúar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafa greint frá við þessa umræðu eru grafalvarleg. Það er greinilegt að um hefur verið að ræða fullkomna valdbeitingu af hálfu meiri hlutans í nefndinni og alveg ljóst að þeir sem að þeim meiri hluta standa, sumir reyndar með fyrirvara eftir því sem mér skilst, gera það ekki öðruvísi en í samráði við forustu ríkisstjórnarinnar. Það þarf hins vegar ekki að koma á óvart að forusta ríkisstjórnarinnar velji þá leið sem helst má til ófriðar horfa. Það hefur verið einkenni á þessari ríkisstjórn og hinni svokölluðu verkstjórn sem verið hefur uppi síðustu tvö árin að alltaf þegar ófriður er í boði er honum tekið. Þó að möguleiki sé á að leiða mál í jörð (Forseti hringir.) og ná sátt þá er ófriðurinn valinn. Það hefur gerst í þessu máli líka.