139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Mig langar að vitna í ávarp forseta þingsins við þingsetningu 1. október, nokkrar tilvitnanir, með leyfi forseta:

„Höfum í huga samhljóða samþykkt allra 63 þingmanna um bætt vinnubrögð á Alþingi.“

Áfram segir:

„Ég tel hins vegar mikilvægt að við tökum höndum saman um að gera starfsáætlun að nýju að marktækri vinnuáætlun þingsins.“

Og aftur:

„Ráðherrar verða að huga tímanlega að þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fyrir Alþingi.“

Síðan heitir forseti á þingmenn að reyna að vinna að umbótatillögum sem snerta þingið.

Í gær komu stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn hingað upp til að gagnrýna vinnubrögð á þingi. Ég hélt að við værum nokkuð sammála um að reyna að ljúka þinginu sómasamlega samkvæmt starfsáætlun, en það er rétt sem kom fram hér hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að kergjan í forsætisráðherra og stoltið hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að sprengja allt vinnulag (Forseti hringir.) í loft upp.