139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að allir geta verið sammála um að margt þarf að bæta í vinnubrögðum á Alþingi. Þar bera auðvitað allir ábyrgð. Ég verð einfaldlega að segja að ég tel að undanfarna daga hafi stjórnarandstaðan ekki sýnt mikla ábyrgð í því að stefna að því að ljúka þingstörfum á þeim tilsetta tíma sem starfsáætlun gerir ráð fyrir. Þá er ég að vísa til þess að menn hafa farið í mjög langar umræður (Gripið fram í.) í þingsal um mál sem eru fullkomlega ágreiningslaus og tafið þannig fyrir öðrum málum. Þetta er engin vitleysa hv. þingmaður, þetta er staðreynd og hægt að benda á nokkur dæmi um það.

Hitt er svo annað mál að mat meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar var að málið væri fullrætt í nefndinni. Gerðar hafa verið margvíslegar breytingartillögur sem koma til móts við hin ólíkustu sjónarmið, m.a. stjórnarandstöðunnar, (Forseti hringir.) en ekki hefur verið tekið í þá útréttu hönd (Forseti hringir.) sem gerir það að verkum að nefndin telur mikilvægt að taka málið til umræðu í þingsal.