139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Við ræðum um stöðuna í þinginu og væntanleg þinglok. Ég vil leyfa mér að benda á að mörgum tugum fyrirspurna þingmanna til ráðherra er enn ósvarað. Margar fyrirspurnirnar eru orðnar nokkurra mánaða gamlar þrátt fyrir að þingsköp kveði á um að ráðherra hafi tíu daga frest til að svara.

Ég vil líka vekja athygli á því, af því að í umræðunni hefur verið nefnt að stjórnarandstaðan hafi verið í einhvers konar málþófi, að þingsköpum var breytt fyrir nokkrum árum síðan og 1. umr. er orðin mjög takmörkuð. Þingmenn hafa einungis 15 mínútur hver í fyrri ræðu og 5 mínútur í seinni ræðu. Þessi gagnrýni berst úr röðum núverandi stjórnarflokksþingmanna sem á sínum tíma höfðu ótakmarkaðan ræðutíma. Meira að segja í fjölmiðlamálinu tókst þinginu að ljúka (Forseti hringir.) störfum í lok maí þrátt fyrir lengstu umræðu í þingsögunni. Nú er kominn 8. júní, við eigum septemberþingið eftir og það er (Forseti hringir.) talað um að halda hér áfram þrátt fyrir að starfsáætlun kveði á um að við hættum á morgun. (Gripið fram í.)