139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að eitthvert skikk komist á þingstörfin því að hver dagur er í fullkominni óvissu. Við vitum í rauninni ekkert hvers er að vænta hér. Það birtist nú heldur betur í morgun þegar fiskveiðistjórnarfrumvarpið, hið minna, var skyndilega rifið út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þrátt fyrir að allir sem tjáð sig hafa um málið væru því mótfallnir og gerðu við það alvarlegar athugasemdir. Skyldi þetta tengjast því eitthvað, virðulegi forseti, að allt í einu birtist stjórnarráðsfrumvarpið í allsherjarnefnd í morgun? Getur verið að hæstv. forsætisráðherra hafi sett það mál í umræðu til að þvinga hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að beita sér fyrir því að hið stórgallaða fiskveiðistjórnarfrumvarp hans yrði tekið úr nefndinni? Vegna þess að ég held að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) sé einn af þeim fjölmörgu sem hafa gert sér grein fyrir að það mál er gjörsamlega vonlaust.