139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:07]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Við ættum að geta verið sammála um tvennt í tengslum við þau fiskveiðistjórnarmál sem við ræðum. Annars vegar að frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skelfilegt að efni til. Í öðru lagi að vinnubrögð hv. nefndar eru eins ófagleg og ólýðræðisleg og hugsast getur. Menn hafa varla séð annað eins hér á síðustu árum í þinginu. Það er fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan óski eftir því að hæstv. forsætisráðherra taki þátt í umræðunni og svari þeim spurningum sem að henni er beint. Það hefur hún ekki gert. Það er fullkomlega eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra geri grein fyrir sínum sjónarmiðum því að hann hefur haft frammi sjónarmið um að þetta frumvarp brjóti gegn stjórnarskrá.

Ég frábið mér að stjórnarandstaðan eigi einhvern þátt í slæmum vinnubrögðum í tengslum við þessi mál á Alþingi. Nú liggur fyrir yfirlýsing frá stjórnarliðum (Forseti hringir.) um að málið hafi verið afgreitt úr nefndinni án umræðu. Það er ekki á ábyrgð (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar heldur á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og hæstv. forsætisráðherra.