139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur.

765. mál
[13:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég tel í sjálfu sér gott að sú ágæta skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu sem sett var á fót á síðasta ári hafi það hlutverk að fylgjast með því að ákvæðum laga um opinberar eftirlitsreglur sé fylgt eftir. Ég vildi hins vegar geta þess, af því hæstv. forsætisráðherra nefndi þá skrifstofu, að ég tel að enn birtist því miður ekki árangur af starfi þeirrar skrifstofu með nægilegum hætti í þeim lagafrumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi. Ég velti t.d. fyrir mér, af því hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn í salinn, hvort skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu hafi gefið frumvörpum hans um sjávarútvegsmál heilbrigðisvottorð (Sjútvrh.: Að sjálfsögðu.) áður en þau voru lögð fram.

Þá verð ég að segja að eitthvað þarf hæstv. forsætisráðherra að herða á og láta þessa skrifstofu vinna betur því að það er mat flestra ef ekki allra sem um frumvörp hæstv. sjávarútvegsráðherra hafa fjallað að þau standist engar kröfur sem gera á til lagafrumvarpa, hvorki hvað varðar undirbúning né framsetningu. Það ætti að vera hlutverk löggjafarskrifstofunnar að koma í veg fyrir eða leiðbeina mönnum um að leggja ekki fram frumvörp sem eru svo vanbúin.

Vissulega spruttu lögin á sínum tíma úr jarðvegi ákveðinnar hugmyndafræði. Ég held að sú hugmyndafræði sé í fullu gildi eins og hún birtist í lögunum þar sem jafnvægi er milli þess að hægt er að setja (Forseti hringir.) reglur í þágu almannahagsmuna. En þegar það er gert þarf að vanda sig og það þarf að upplýsa hver áhrif reglnanna eru.