139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

þingmál í tengslum við Sóknaráætlun 20/20.

766. mál
[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gat þess af hverju þetta þingmál hefði ekki verið lagt aftur fram. Miðað við þá gríðarlega miklu undirbúningsvinnu sem fram hafði farið og margir tekið þátt í, sveitarstjórnarmenn, þingmenn og fjöldi manna um allt land, þótti okkur mikilvægt að þráðurinn slitnaði ekki. Því væri rétt að halda áfram þessari vinnu. Ég gat þess líka í svari mínu að það er auðvitað ætlanin að á næstu missirum og árum muni koma inn í þingið fjöldi mála sem tengist þessari áætlun. Nú er það ekkert einsdæmi að allur gangur sé á því hvort áætlanir sem unnar eru séu lagðar fyrir þing eða ekki. Ég nefndi hér „Nýskipan í ríkisrekstri“. Ég nefni „Árangursstjórnun í ríkisrekstri“ og „Netríkið Ísland“. Mansalsáætlun sem var unnin í tíð fyrri ríkisstjórnar var ekki lögð fyrir þingið, ekki frekar en heilsustefna heilbrigðsiráðuneytisins, löggæslustefna dómsmálaráðuneytisins, framtíðarstefnumörkun um sjálfbæra þróun o.s.frv., þannig að það er auðvitað allur gangur á því hvort þessar áætlanir eru lagðar fram eða ekki. Þegar búið er að vinna málin í form þingsályktunartillagna og frumvarpa finnst mér mikilvægast að þau komi í þeim búningi inn í þingið og í formi skýrslugerðar eins og ég nefndi þannig að þingið fylgist eðlilega með málunum.

Ég held að fáir hafi komið eins mikið að öðrum málum en þessu tiltekna máli eins og undirbúningnum var háttað. Það var haldinn nokkurs konar þjóðfundur og vinna um allt land í sveitarstjórnum þannig að mjög margir hafa komið að málinu. Tilraun var gerð til að setja það fyrir þingið en um það náðist ekki samstaða og ég hef skýrt af hverju.

Varðandi 20/20-áætlun Evrópusambandsins er hún til. Það eru til 20/20-áætlanir víðar, eins og á Írlandi. Stundum (Forseti hringir.) hefur verið reynt að halda hér fram að það sé eitthvert samhengi með okkar áætlun og tilskipan Evrópusambandsins en okkar hefur verið í undirbúningi (Forseti hringir.) í langan tíma.