139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

úttekt á stöðu EES-samningsins.

757. mál
[13:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns er nei. Ég er ekki reiðubúinn til þess að fara í slíka úttekt á þessum tíma. Fyrir því eru ýmsar ástæður, kannski þær helstar tvær að við Íslendingar höfum ákveðið að freista þess að sníða af eða sneiða hjá ágöllum EES-samningsins með öðrum hætti. Hv. þingmaður reifaði það rækilega áðan. Þetta þing hefur tekið ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Þó að ég sé þakklátur fyrir umhyggju hv. þingmanns get ég fullvissað hann um að umsóknarferlið er allt á tímaáætlun. Það er ekkert sem hefur komið upp í samskiptum okkar við Evrópusambandið sem bendir til annars en að bjartsýni okkar í upphafi hafi verið á rökum byggð.

Í öðru lagi er ekki langt síðan nefnd undir forustu þáverandi dómsmálaráðherra skilaði skýrslu, ég átti sæti í nefndinni, um Evrópu og nánari tengsl Íslands við Evrópu og stöðu Íslands. Þar var t.d. farið mjög rækilega yfir þá ágalla sem vissulega er líka að finna á EES-samningnum. Þeir eru enn í fullu gildi. Tíminn hefur ekkert gert annað en að auka þá. (Gripið fram í.) Samningurinn sem var samþykktur á sínum tíma er í reynd, hvað má segja, statískur, þ.e. til þess að breyta meginmáli samningsins þarf samþykki allra landanna sem að honum standa. Það er ekki nokkur vilji til þess. Síðan hefur það gerst að fjórir meiri háttar samningar hafa verið gerðar innan Evrópusambandsins. Það er nokkuð önugt fyrir okkur að hafa af þeim þá ávinninga sem við hugsanlega vildum og alls ekki í gegnum EES.

Hv. þingmaður spurði mig síðan um afstöðu mína til EES-samningsins. Ég hef alltaf verið ákaflega hlynntur honum. Ég studdi hann á sínum tíma andstætt flokki hv. þingmanns en nú vilja allir Lilju kveðið hafa. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að hann hefur orðið okkur mjög til farsældar. Það var nú samt sem áður þannig að áður en sú ríkisstjórn sem að lokum hratt honum til framkvæmda tók við völdum var Sjálfstæðisflokkurinn á móti EES-samningnum.

Í upphafi bentu menn strax á að hann væri á ákveðnu gráu svæði gagnvart stjórnarskrá. Við höfðum ekki beina aðkomu að ákvörðunum. Við höfðum á þeim tíma mótandi áhrif mjög framarlega í ferli ákvarðana nálægt framkvæmdastjórninni. Þetta var strax að mati sérfræðinga talið vera á gráu svæði.

Síðan hefur það gerst að mjög hefur aukist á lýðræðishallann gagnvart Íslandi og EFTA-ríkjunum. Það stafar af því, þó að fjarstæðukennt megi virðast, að innan Evrópusambandsins kom fram hörð gagnrýni á það að Evrópuþingið, sem var kosið af íbúum Evrópusambandslandanna, hefði mjög lítið vægi. Það var einungis ráðgefandi á þeim tíma. Menn hafa brugðist við því á þann hátt að segja má að Evrópuþingið sé núna orðið ný eða ein af þungamiðjunum í ákvörðunum innan Evrópusambandsins. Það gerist æ oftar að mál sem fara í ferli hjá Evrópusambandinu enda hjá þinginu og er stundum gjörbreytt þar án þess að ríki eins og við sem erum í EES og eigum aðkomu í gegnum það höfum nokkra möguleika á því að hafa nokkur áhrif á það.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til þrátt fyrir umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu að gera allt sem við getum til þess að styrkja EES-samninginn og hafa af honum það gagn sem hægt er. Þess vegna hef ég átt orðastað við hv. þingmann um það hvernig þingið og þingflokkarnir gætu haft ákveðna aðkomu að Evrópuþinginu, svipað og Norðmenn, með því að hafa þar skrifstofu, Norðmenn hafa þar tugi manna í dag en við höfum engan. Ég hef líka verið því fylgjandi að þingflokkarnir þiggi boð flokkahópanna á Evrópuþinginu um seturétt í flokkahópum sínum. Ég tel að ef eitthvert mál kæmi til kasta þingsins sem væri andstætt hagsmunum Íslands mundu allir íslensku þingflokkarnir hafa sameiginlega afstöðu í því máli og geta unnið það með þeim hætti. Ég tel hins vegar að það sé miklu betra að við göngum í Evrópusambandið.

Ég er líka þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli séum við að tapa valdi og framselja vald með þeim hætti sem ekki er heimilt. Ég vek eftirtekt á því að ég beindi sjónum þingsins sérstaklega að máli sem ég flutti í krafti EES-samningsins í vetur þar sem ég taldi að það væri algjörlega á mörkunum. Stefán Már Stefánsson prófessor sem veitti umsögn um það taldi að svo væri ekki af því þetta væri á svo þröngu svæði. En í sömu álitsgerð kom það fram, sem ég lét þingið fá, að hann teldi að samningurinn og framsalið væri farið að vera svo víðtækt og með þeim hætti sem hann taldi að væri ekki ásættanlegur lengur.

Þetta vildi ég segja við hv. þingmann.