139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

úttekt á stöðu EES-samningsins.

757. mál
[13:49]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í samningaviðræðunum um EES náðu Íslendingar nær öllum kröfum sínum fram. Það sama var upp á teningnum við gerð fríverslunarsamnings við Evrópusambandið árið 1972 og við aðildina að Schengen. Ríkisstjórn Íslands náði einnig fram samningsmarkmiðum sínum þegar við gengum í EFTA á sínum tíma árið 1970. Það var og er í rauninni stórmerkilegt hvað vel til tókst í öllum þessum tilfellum. Það sýnir okkur hversu við erum megnug, hversu lítil þjóð er megnug ef hún hefur skýr samningsmarkmið og heldur fast á sínu.

Í dag er mikilvægast af öllu að stjórnmálamenn, hagsmunasamtök og félagasamtök sem láta sig Evrópumál varða standi í megindráttum saman um að tryggja góðan aðildarsamning við Evrópusambandið. Í því eru hagsmunir þjóðarinnar fólgnir. Hinn ólýðræðislegi EES-samningur tilheyrir fortíðinni. Kostir hans og gallar liggja þegar fyrir. Hann er táknmynd gamla tímans. Samvinna á jafnræðisgrundvelli við aðrar þjóðir (Forseti hringir.) innan Evrópusambandsins er framtíðin.