139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

úttekt á stöðu EES-samningsins.

757. mál
[13:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar aðeins í byrjun til að ítreka það að ég held að þessi órói og í rauninni litli stuðningur sem hæstv. utanríkisráðherra hefur gagnvart umsóknarferlinu að Evrópusambandinu sé ekki til þess að styðja það ferli allt. En gott og vel. Hæstv. utanríkisráðherra heldur svo sem ágætlega um málið og hefur til þess ágætan stuðning vonandi víða að úr samfélaginu að klára það ferli allt.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra kom inn á og reyndi að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf verið á móti EES en síðan hefði hann komið og samþykkt hann, þá skulum við bara hafa eitt á hreinu. Ég hef sagt það mjög ítrekað, bæði innan flokks míns og annars staðar, að allar stærstu utanríkispólitísku ákvarðanirnar í sögu þjóðarinnar, sem að mínu mati hafa einmitt verið mjög farsælar eins og fram hefur komið, er aðildin að NATO, er samþykktin að ganga í EFTA og síðan að tryggja EES-samninginn. Ekkert af þessu hefði orðið að veruleika nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið að málum. Það er einfaldlega þannig. Það er sama hvað menn hafa verið að segja um fortíðina, þá er þetta nákvæmlega það sem skiptir máli. Ég hefði kosið, og ítreka það sem ég sagði í ræðustól í gær, að þrátt fyrir ólík sjónarmið innan margra flokka gætu menn þó sameinast um það að ná sem hagfelldustum samningi fyrir þjóðina.

Hvað varðar fyrirspurn mína skil ég hæstv. ráðherrann þegar hann segir nei, ég ætla ekki að fara í svipaða úttekt. Mér finnst það heiðarlegt og gott svar. Við erum sammála um það og ég fagna því sérstaklega að þrátt fyrir að vera ekki reiðubúinn í þessa úttekt eigum við engu að síður að vera í startholunum með að rýna skýrslu Norðmanna mjög ítarlega. Ég mæli með því að t.d. utanríkismálanefnd þingsins fari ítarlega yfir þá skýrslu.

Ég fagna því líka sérstaklega sem ráðherra sagði að við eigum að nýta kosti EES-samningsins og nýta það sem hann hefur upp á að bjóða meðan við búum við hann. Það eigum við að gera. Þess vegna verður eftirtektarvert að fylgjast m.a. með því hvað hæstv. forsætisnefnd kemur til með að gera í tillögum sínum (Forseti hringir.) og tillögugerð þegar kemur að fjárlögum næsta árs, hvort þingið ætli sér í raun og veru að nýta þær (Forseti hringir.) heimildir sem það hefur til að fylgja eftir réttindum og hagsmunum Íslands í tengslum (Forseti hringir.) við EES-samninginn.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða ræðutíma.)