139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[13:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Við þekkjum öll að fram hefur farið mikil umræða á öllum tímum um ráðgjöf fiskifræðinga um heildaraflamark. Þær umræður eru því ekki nýjar af nálinni og þær eiga örugglega eftir að standa líka í framtíðinni. Fyrir allmörgum árum var sett niður svokölluð aflaregla sem gildir um veiðar úr þorskstofninum. Hugsunin var sú að reikna út stærð viðmiðunarstofns sem Hafrannsóknastofnun gerir á hverjum tíma og taka síðan ákvörðun um hversu mikinn hluta viðmiðunarstofnsins, sem er þorskur fjögurra ára og eldri, skuli veiða. Niðurstaðan var sú að veiða tiltekið hlutfall úr þessum stofni. Síðan hefur aflareglan tekið nokkrum breytingum. Í dag er hún þannig að reiknað er út hlutfall af viðmiðunarstofninum, fjögurra ára fiski og eldri, og sú tala er síðan lögð saman við afla á yfirstandandi ári, deilt í með tveimur og niðurstaðan er sá afli sem lagður er til grundvallar þegar útgefinn er kvóti.

Árið 2007 við mjög erfiðar aðstæður, þegar fyrir lá að þorskstofninn var minnkandi og fyrir lá líka að fram undan gætu verið mögur ár, var tekin sú erfiða ákvörðun — ég tók hana sjálfur — að lækka veiðihlutfallið niður í 20%. Þetta hafði í för með sér 63 þús. tonna lækkun á þorskkvótanum. Nú sjáum við að þetta er að bera þann árangur að þorskstofninn er í mjög miklum vexti og er núna kominn upp úr því að vera rúm 500 þús. tonn í nærri því milljón tonn. Þetta er sannarlega árangur. Við sjáum að þorskstofninn er að braggast.

Mikil deila hefur staðið um það hvernig þessi aflaregla eigi að vera útfærð í framtíðinni. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 14. október sl., fyrir átta mánuðum, að hann væri að skipa starfshóp til að fara yfir þetta og sá starfshópur eða samráðsvettvangur ætti að ræða þetta mat á grundvelli núgildandi reglu og móta síðan nýjar tillögur ef þörf krefði. Þetta er út af fyrir sig fínt og hæstv. ráðherra skipaði í þessa nefnd prýðilegt fólk sem ég er viss um að hefur unnið vel og vandlega að þessu verkefni. Nú ber hins vegar vel í veiði í orðsins fyllstu merkingu. Við erum að ræða þetta mál einmitt þann dag sem Hafrannsóknastofnun er að kynna tillögu sína um 177 þús. tonna aflaaukningu, sem að vísu fer því miður meira og minna fram hjá aflamarksskipunum vegna afskipta hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er önnur saga. Ég leita þess vegna svara hjá hæstv. ráðherra um hvað störfum þessarar nefndar líði og hverjar séu tillögurnar sem nefndin hafi kynnt fyrir hæstv. ráðherra.