139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[13:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg hárrétt að haustið 2010 setti ráðherra á fót samráðsvettvang sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi um nýtingu helstu nytjafiska. Verkefni hópsins var að meta núverandi nýtingarstefnu og aflareglu fyrir þorsk og kanna hvort rétt væri að leggja til breytingar þar á eða hvort bæta þyrfti enn frekar fræðilegan grunn þeirra. Þessi nefnd hefur verið að störfum síðan. Ég vil ekki eyða tímanum hér í að rekja hverjir eru í henni en hún er undir forustu Skúla Skúlasonar, rektors Háskólans á Hólum.

Þessi samráðsvettvangur skilaði áliti fyrir örfáum dögum og er álitið núna í skoðun og yfirferð í ráðuneytinu. Stefnt er að því að hópurinn kynni það sérstaklega og í framhaldi af því verði farið í víðtæka umræðu um ýmsa þætti sem samráðsvettvangurinn leggur til. Ég vil nefna hér sérstaklega og vitna í skýrsluna en þar segir orðrétt:

„Strax í upphafi vinnuvettvangsins var ljóst að aflareglan og forsendur hennar njóta takmarkaðs skilnings meðal hagsmunaaðila og almennings og oft heyrast gagnrýnisraddir í hennar garð. Sú gagnrýni stafar ekki síst af takmörkuðu samráði við mótun hennar og skorti á kynningu á henni. Mikilvægt er að bæta úr þessu. Lagt er til að breytt verði fyrirkomulagi við mótun og endurskoðun nýtingarstefnu og aflareglna í framtíðinni með mun nánari samvinnu hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnvalda. Slíkt er í raun forsenda þess að hægt sé að móta trúverðuga nýtingarstefnu sem sátt er um. Náið samráð styrkir á margvíslegan hátt gildi þeirra ákvarðana sem teknar eru, þar með talið að tryggt sé að byggt sé á víðtækum þekkingar- og reynslugrunni þeirra sem að málinu koma. Í skýrslunni eru einnig settar fram tillögur um skipulag vinnuferlis samráðsstjórnarinnar.“

Þetta eru tillögur hópsins. Hins vegar er það líka mat hópsins á kostum aflareglunnar að í fyrsta lagi endurspegli hún vilja til að tryggja að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi við ákvörðun aflamarks í stað skammtímahagsmuna eingöngu. Í öðru lagi sé hún einföld og gagnsæ. Í þriðja lagi virðist hún samkvæmt niðurstöðum stofnmats bera árangur hvað snertir uppbyggingu þorskstofnsins. Og í fjórða lagi styður hún við markaðsstarf fiskútflytjenda á erlendri grundu þar sem æ meiri áhersla er lögð á að hægt sé að sýna fram á að um fullkomlega sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar sé að ræða.

Ég vil þó leggja áherslu á að ákvörðun um að taka upp nýtingarstefnu til langs tíma ásamt aflareglu fyrir einstaka stofna er að mínu viti stór ákvörðun og það er ákvörðun sem krefst mikillar umræðu og samráðs við aðila bæði innan og utan sjávarútvegsins. Þetta er líka ákvörðun sem krefst mikillar umræðu á vettvangi stjórnmálanna.

Mín skoðun er sú að ef við ákveðum að feta okkur áfram þennan veg, sem ég tel reyndar rétt og nauðsynlegt, sé jafnframt unninn við það víðtækur stuðningur og skilningur í þjóðfélaginu. Til þess þarf, eins og ég sagði áður, að fara fram víðtæk kynning á málefninu og að því mun ég standa. Einn þáttur þess var einmitt að stofna til þessa samráðsvettvangs.

Varðandi svo að öðru leyti mat á á aflareglunni í þorski er það álit starfshópsins að það sé byggt á bestu vísindalegu þekkingu og grunni sem við höfum til að taka slíka ákvörðun en lögð er áhersla á að við kynningu og endanlega ákvörðun á aflamarki sé haft víðtækara samráð. Sérstaklega verði lögð áhersla á kynningarferlið og ekki hvað síst á hinum pólitíska vettvangi sem verður jú að axla ábyrgð á þessari ákvörðun sem er gríðarlega mikilvæg og vandasöm.