139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[14:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á svar hæstv. ráðherra vantaði bara að hann tæki upp sömu siði og eru hér hinum megin við götuna í Ráðhúsi Reykjavíkur hjá ákveðnum borgarfulltrúum og segði bara: Djók! Hér er verið að tala um samráð. Er þetta svipað samráð og var haft í sáttanefndinni sem var hraunað yfir, valtað yfir þá niðurstöðu? Er þetta svipað samráð og var haft í sjávarútvegsnefnd í gærkvöldi þar sem frumvarpið var tekið út með töngum? Meira að segja stjórnarþingmenn sögðu að umræðan hefði ekki verið mikil. Nei, þrátt fyrir eflaust góðan vilja hjá hæstv. ráðherra er þetta bara húmbúkk. Þetta er bara yfirklór, þetta eru bara orð á blaði. Þegar kemur að því hjá hæstv. ríkisstjórn að gera eitthvað í sátt, reyna að vera í samráði við hagsmunaaðila, er ekkert um það að ræða. Það er ekki einu sinni í boði. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að tala um samráð þegar hann býður ekki einu sinni upp á það. Það hefur alltaf verið samráð hjá hæstv. ráðherrum í fyrrverandi ríkisstjórnum við aðila í sjávarútvegi. Það má eiginlega segja að verið sé að brjóta í blað hvað það varðar núna að það er ekkert (Forseti hringir.) samráð haft, heldur er verið að fara gegn öllum tillögum sem koma frá hagsmunaaðilum og stokka upp og í rauninni fokka upp því sjávarútvegskerfi sem nú er.