139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[14:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og svör hæstv. ráðherra svo langt sem þau ná en ég verð að játa það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Hæstv. ráðherra segir okkur að nú liggi fyrir skýrsla frá þessum samráðsvettvangi um aflaregluna. Þá hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherra hefði greint okkur frá hverjar séu hinar beinhörðu tillögur samráðsvettvangsins ef þær eru til staðar varðandi aflaregluna. Vill samráðsvettvangurinn hverfa frá aflareglunni? Það heyrðist mér ekki. Vill samráðsvettvangurinn gera breytingar á þessari aflareglu? Það kom ekki fram. Vill samráðsvettvangurinn t.d. við þær aðstæður sem eru núna auka veiðihlutfallið úr viðmiðunarstofninum? Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra. Ég verð að fara fram á það í mestu vinsemd við hæstv. ráðherra að hann greini okkur frá því, greini þinginu og þjóðinni frá því hvort í þessum tillögum samráðsvettvangsins sé að finna einhverjar tillögur í þá áttina að það eigi að gera beinar breytingar á sjálfri reglunni.

Það eru engin ný tíðindi fyrir mig sem gamlan ráðherra og fyrrverandi formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að haft sé samráð þegar verið er að taka ákvarðanir um heildaraflamark. Sem ráðherra kallaði ég t.d. alltaf fyrir mig fulltrúa allra hagsmunasamtaka, átti mjög langar viðræður við þá og bað um tillögur og hugmyndir þeirra um hvernig standa ætti að málum.

Aflareglan er eins og við þekkjum og ég rakti áðan. Ég vil vita hvort stendur til að gera einhverjar breytingar þar. Ég vil sömuleiðis inna hæstv. ráðherra eftir hugmyndum um að taka upp aflareglu í fleiri tegundum.

Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að svör hæstv. ráðherra lutu ekki að því að upplýsa okkur um hverjar væru raunverulegar tillögur þessa vettvangs, þessarar nefndar, um það hvernig aflaregla í þorski í þessu tilviki ætti að líta út í framtíðinni. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra allra náðarsamlegast um að greina þinginu frá því hvað þarna er að finna.

Ég óska síðan eftir því formlega að á mitt borð verði á eftir lögð þessi skýrsla. Ég á rétt á því sem þingmaður og upplýsingalög sem við höfum sett á Alþingi (Forseti hringir.) kveða á um að þessi skýrsla sé gerð opinber. Ég óska hér með formlega eftir því að ég fái hana tafarlaust í hendur.