139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

rekstrarstaða sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda.

515. mál
[14:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Búvörusamningurinn haustið 2008, með fjárlagafrumvarpinu þá, var ekki verðbættur að fullu. Það neyddumst við til að gera eftir efnahagshrunið sem varð um haustið 2008. Hins vegar var það gert þannig að búvörusamningarnir voru verðbættir með sama hætti og til dæmis almannatryggingarnar í landinu. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá þingmaður, gagnrýndi þetta mjög harkalega. Síðan komst VG í ríkisstjórn, þá varð niðurstaðan sú að hverfa ekki frá þessari skerðingu heldur staðfesta hana, síðan framlengja hana um eitt ár og það er sannleikur málsins. Til viðbótar þessu var tekin sú ákvörðun við fjárlagagerð þessa árs og í fyrra að skerða framlög inn í Lífeyrissjóðs bænda um 300–400 millj. kr. á ársgrundvelli sem þýðir að bændur eru að borga meira, sem því nemur, í Lífeyrissjóð bænda. Það hefur í för með sér að afkoma og lífskjör bænda skerðast sem því nemur.

Ég vil segja við hæstv. ráðherra: Það er ekki stórmannlegt að reyna að skýla sér á bak við annað í þessu máli. Hæstv. ráðherra á einfaldlega að viðurkenna að hann ákvað að staðfesta þá skerðingu sem ákveðin var við fjárlagagerðina haustið 2008.