139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

rekstrarstaða sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda.

515. mál
[14:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði að þessi ríkisstjórn gerði á ný samninga við bændur, sem fóru í atkvæðagreiðslu, um það hvernig þeir tækju að hluta á sig afleiðingar hruns ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (Gripið fram í: Nei.) og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sá samningur var síðan samþykktur.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það þarf að standa enn betur vörð um kjör bænda og félagsskap þeirra. Ég mun beita mér fyrir því eins og ég hef gert og tek alveg við brýningum í þeim efnum. Stundum heyrast þær raddir frá ýmsum aðilum að landbúnaðurinn hafi ekki þurft að taka á sig eins miklar fórnir og aðrir vegna hrunsins. Það er bara þveröfugt. Bændur voru þeir fyrstu sem tóku á sig skerðingar vegna hrunsins á grundvelli mikillar samfélagslegrar ábyrgðar. Ég tek undir orð hv. þingmanns í þeim efnum.

Ég get líka fullvissað hv. þingmann um að við viljum ekki fórna stöðu landbúnaðarins í þeim aðildarviðræðum sem nú standa yfir við Evrópusambandið. Þær snerta ekki hvað síst matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar, þ.e. að við séum með sterkan og öflugan landbúnað sem framleiðir hollan og góðan mat. Öflug matvælaframleiðsla mun skipta okkur máli, bæði til skemmri tíma og lengri tíma litið. Ég mun því standa vaktina í þessum efnum gagnvart öllum áformum eða hugmyndum um að skerða stöðu (Forseti hringir.) og öryggi íslensks landbúnaðar í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið, (Forseti hringir.) frú forseti. Forseti má treysta því.