139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eyðibýli.

853. mál
[14:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst töluvert áhyggjuefni að ekki skuli vera haldið utan um þessar upplýsingar og að hæstv. ráðherra geti ekki svarað þessari fyrirspurn. Það er reyndar því miður í samræmi við margt í sögu minjaverndar á Íslandi um áratugaskeið að það er ekki hugað nógu vel að þessum hlutum þó að gildi þeirra sé tvímælalaust mikið, m.a. af ástæðum sem ég rakti áðan um þessi gömlu býli, að þau tengja landslagið við söguna og gefa því aukið gildi. Þau eru nokkurs konar vörður á leiðinni því að oft eru heilu dalirnir komnir í eyði en á meðan minjar standa uppi um þá byggð sem þar var gefur það aukið vægi og varðar leiðina.

Ég lýsi yfir áhyggjum af því að ekki sé haldið utan um þessa hluti. Hins vegar er ég ánægður að heyra að hæstv. ráðherra virðist vera sammála mér um gildi þessarar minjaverndar. Hæstv. ráðherra nefndi að það væru tilvik þar sem rétt þætti að leyfa húsum að standa sem minjum um gamla tíð. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um að það ættu að vera meira en tilvik, það ætti í raun frekar að vera reglan? Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að menn haldi betur utan um þessi mál og verndi þessar minjar um sögu landbúnaðar og í raun sögu samfélagsins alls? Það er ekki bara spurning um að vernda söguna, heldur líka efnahagslegt spursmál. Eins og ég nefndi áðan tengist þetta ferðaþjónustunni, gerir það áhugaverðara en ella að ferðast um landið. Við verðum til dæmis vör við mikinn áhuga erlendra ferðamanna á þessu og ekki síður þeirra íslensku. Þetta er liður í að vernda söguna og hefur líka efnahagslegt gildi.