139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

djúpborunarverkefni á jarðhitasvæðum.

516. mál
[14:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Við höfum heyrt af því á undanförnum árum hversu gríðarlega miklir möguleikar liggja í djúpborunarverkefnum. Skemmst er þess að minnast að árið 2007 var sett á fót formlegt samstarf á milli orkufyrirtækja, Orkustofnunar, Alcoa og jafnvel fleiri aðila í framhaldi af því, um rannsóknir á djúpborunarverkefni á Kröflusvæðinu sem er á norðausturhorni landsins. Nú er árið 2011 og það væri áhugavert að heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra, sem er mjög áhugasöm um orkuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum, hvernig þetta verkefni gangi.

Nú hefur verið sagt að gangi þetta eftir geti verið um að ræða fimm- eða jafnvel tíföldun á því orkumagni sem verið er að vinna nú, þ.e. ef menn fara dýpra ofan í jörðina. Ef þetta verkefni gengur eftir gæti það í raun og veru margfaldað þær orkuauðlindir sem eru fyrir hendi í Þingeyjarsýslum og eru þær nú miklar fyrir. Þetta er því spennandi. Í þeirri umræðu sem við reynum að halda uppi, m.a. við framsóknarmenn, hér á Alþingi um atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum væri mjög áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig það gengur. Það má svo velta fyrir sér framhaldinu ef þetta gengur vel hvort önnur landsvæði kæmu þá á eftir því að óhjákvæmilega yrðu til þúsundir nýrra starfa í íslensku samfélagi. Það veitir svo sannarlega ekki af því.

Ég beini þessum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra: Hvar á vegi eru þessi mál stödd í dag? Hvenær megum við búast við því að við förum að sjá árangur af þessu verkefni og jafnvel af orkuframleiðslu úr djúpum holum á Kröflusvæðinu?

Ég tel að með þessu séum við að margfalda afkastagetu svæðisins orkulega séð, ef þetta gengur upp, með tilheyrandi jákvæðum fréttum fyrir atvinnulífið í Þingeyjarsýslum og vonandi vítt og breitt um landið, þar með fyrir íslenskt þjóðarbú og íslenskan almenning. Þannig minnkum við atvinnuleysið. Það væri virkilega ánægjulegt að fá jákvæðar fréttir frá hæstv. ráðherra af þessu máli því að það koma dimmir dagar hér í þinginu í umræðum um atvinnu- og efnahagsmál. Það verður því áhugavert að heyra svör hæstv. ráðherra.