139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

djúpborunarverkefni á jarðhitasvæðum.

516. mál
[14:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera þessa fyrirspurn upp vegna þess að ég það er orðið töluvert síðan menn ræddu þessi mál í þinginu. Það er svo sannarlega orðið tímabært.

Við höfum fréttir að færa. Það er kannski rétt að ég fari stutt yfir forsöguna vegna þess að menn þurfa að rifja þetta mál aðeins upp. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það var í júlí 2007 sem fulltrúar Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Alcoa og Orkustofnunar undirrituðu samstarfssamning um djúpborunarverkefni á háhitasvæðum. Það var ætlunin að ráðast í þrjú verkefni. Árið 2008 bættist Statoil í hópinn sem mikill fengur var í. Verkefnið á sér þó mun lengri forsögu, eða aftur til ársins 2000 þegar fyrst var farið að huga að því að bora allt að 4.000–5.000 metra djúpar borholur með það að markmiði að ná 400–600° hita og yfirmarksástandi í þrýstingi. Við slíkar aðstæður standa vonir til að ná megi mun meiri orku úr hverri borholu. Eins og hv. þingmaður kom inn á er þetta því afar vænlegt verkefni og getur orðið vænlegt fyrir okkur Íslendinga um allt land.

Staðan er sú að byrjað var að bora fyrstu djúpborunarholuna af þremur sem kveðið er á um í samningnum um verkefnið á Kröflusvæðinu í október árið 2008. Í mars árið 2009 kom í ljós að borað hafði verið niður á hraunkviku á um 2.100 metra dýpi. Þar með var ljóst að markmið verkefnisins næðist ekki við borun þeirrar holu þar sem hún mundi ekki ná fyrirhugaðri dýpt sem var áætluð um 3.500–4.500 metrar. Þar af leiðandi næðist ekki yfirmarksástand jarðhitavökva sem næst við 270°. Holan í Kröflu hefur þrátt fyrir þetta gefið mikilvægar upplýsingar um nýtingu jarðhitans. Frekari rannsóknir verða unnar við holuna nú í sumar.

Vegna þeirra jákvæðu teikna og mikilvægu upplýsinga sem þarna hafa fengist ákváðu aðstandendur verkefnisins að halda áfram rannsóknum á holunni eins og upphaflega hafði verið áformað. Í fyrrasumar fóru fram svokallaðar tilraunablástursprófanir til að kanna eiginleika vökvans og holan reyndist heitasta vinnsluhola í heimi. Hún blæs líka þurrgufu sem dygði fyrir framleiðslu 20–25 MW af raforku. Efnainnihald gufunnar olli þó tæringu á yfirborðslögnum og var holunni því lokað á meðan unnið er að endurbótum og nýjum tæringarþolnari blástursbúnaði. Blástursprófanir hófust síðan aftur núna í maí og eru í gangi og munu standa fram eftir þessu ári. Við munum án efa fá frekari upplýsingar um þessa holu í lok árs.

Vinnsluaðferðir verða reyndar mismunandi, svo sem blauthreinsun og þurrhreinsun gufu og varmaskiptabúnaður. Stjórn verkefnisins vonast til að vel takist til með tilraunina í ár því að holan er mjög afkastamikil og gætu niðurstöðurnar leitt til þess að tekin yrði upp ný vinnsluaðferð til gufuöflunar við síðari áfanga Kröfluvirkjunar. Það eru góðar fréttir.

Varðandi framhald verkefnisins er unnið að undirbúningi þess að bora djúpborunarholu nr. 2, en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort sú hola verði boruð á Reykjanesi eða á Hellisheiði. Borun djúpborunarholu 2 gæti hafist á næsta ári eða á árinu 2013, en ákvarðanir um framkvæmdir munu liggja fyrir í haust. Undirbúningurinn felst í því að endurbæta hönnun djúpborunarholunnar í ljósi reynslunnar af boruninni í Kröflu.

Virðulegi forseti. Jarðvarminn getur verið ansi dyntóttur og menn þurfa að aðlagast og breyta vinnsluaðferðum eftir því sem reynslan og rannsóknirnar verða meiri. Við hljótum að vera bjartsýn á þetta verkefni vegna þess að ýmis jákvæð teikn eru á lofti og verkefnið heldur áfram á fullum skriði. Eins og hv. þingmaður heyrir gefast menn ekki upp þótt á móti blási eða niður í kviku kemur, eins og í þessu tilfelli, heldur breyta einfaldlega um vinnsluaðferðir og þróa nýjar aðferðir og ný tæki til að ná upp og nýta jarðvarmann sem þarna er að finna. Ég held að við getum verið nokkuð brött hvað varðar góðar fréttir þegar þessari lotu rannsókna lýkur síðar á árinu.