139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

djúpborunarverkefni á jarðhitasvæðum.

516. mál
[14:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra upplýsingarnar. Það verður spennandi að sjá hvað sumarið ber í skauti sér hvað varðar tilraunaborholuna á Kröflusvæðinu.

Ég bið hæstv. ráðherra að afsaka því að þetta er aðeins á skjön við fyrri spurningu mína, en vegna áhuga Þingeyinga og í raun allra á norðausturhorni landsins á atvinnuuppbyggingu á svæðinu þá hefur komið fram í umræðunni að Landsvirkjun slái slöku við þegar kemur að rannsóknum í sumar á Þeistareykjasvæðinu og á jarðhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra flytji þau skilaboð héðan að fullur gangur verði í því verkefni og rannsóknum á orkuauðlindunum á svæðinu þannig að við getum virkjað þá orku sem þar er fyrir til atvinnusköpunar. Það er mikilvægt vegna þess að ég hef það á tilfinningunni að á næstu árum verði markvisst hægt að fara í nokkuð umfangsmikla orkuöflun á þessu svæði með tilheyrandi atvinnusköpun. Í framhaldinu mun sú orka sem þaðan kemur nýtast til atvinnuuppbyggingar þar. Við hæstv. ráðherra þekkjum það mætavel að það hefur blásið á móti í byggðaþróun á svæðinu. Þessi atvinnusköpun gæti breytt því í grundvallaratriðum. Það er mikilvægt að við höfum augun opin hvað þessi mál varðar.

Ég fagna því að menn ætli að vinna áfram að djúpborunarverkefnunum. Það er spurning hvort hægt sé að setja meiri kraft í þau, ég skal ekki um það segja, en mikilvægt er að þessi mál séu á rekspöl. Vonandi mun þessi vinna og þessar rannsóknir leiða til þess að við fáum mun meiri orku af þessum svæðum sem verður til þess að við getum stuðlað að öflugra atvinnulífi og aukinni hagsæld í íslensku samfélagi.