139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

750. mál
[14:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er hér að spyrjast fyrir um endurútreikning lána. Það er þannig með stöðuna á þingstörfunum að það er mjög langt síðan fyrirspurnin kom fram. Í millitíðinni hef ég beðið um utandagskrárumræðu um sama efni en enn hefur ekki orðið af henni. Vonast ég til þess að við getum farið í hana áður en hlé verður gert á þingstörfum. Ég held að það væri afskaplega æskilegt vegna þess að hér er um mjög stórt mál að ræða, endurútreikning gengistryggðra lána. Frá því að ég lagði fram þessa fyrirspurn fyrst hefur ýmislegt komið fram í tengslum við málið. Svörin við þeim eru þá bara staðfesting á því sem ráðherra hefur sagt nú þegar. Fyrsta spurningin er svona:

Er ráðherra sáttur við framkvæmd fjármálafyrirtækja á endurútreikningi gengistryggðra lána?

Það hefur verið mjög hörð gagnrýni á hann og það er augljóst að framkvæmdin á þeim endurútreikningi er með þeim hætti að ekki er tekið tillit til höfuðstólsgreiðslna inn á lánin. Við endurútreikninginn láta menn eins og hér hafi bara ekkert gerst, réttara sagt að menn bara byrji einhvern veginn á núlli og reikni þetta upp eins og menn hafi bara tekið annars konar lán, þ.e. lán með óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er fólk með kvittanir í höndunum um að það hafi greitt niður höfuðstól. Ef tekið er tillit til þess verður slíkur útreikningur mun hagstæðari fyrir fólk en sá hefðbundni útreikningur sem hefur verið í gangi. Ég sýni ágætlega fram á þetta með reiknivél á heimasíðu minni gudlaugurthor.is.

Önnur spurning er:

Af hverju hefur ekki verið kveðið nánar á um framsetningu útreiknings á uppgjöri vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar í reglugerð eins og heimilt er samkvæmt lögum nr. 151/2010?

Þar hafði hæstv. ráðherra heimild til þess að koma með nánari útfærslu en kaus að gera það ekki.

Þriðja spurningin varðar framkvæmdir ráðherrans og er kannski mikilvægust vegna þess að hún snýr að hagsmunum fjölda einstaklinga. Ég verð að viðurkenna að í þessum skuldaúrlausnarmálum — hæstv. ríkisstjórn hefur gengið mjög illa að vinna úr þeim eins og margoft hefur komið fram — leit ég svo á að þetta væri fullkomin himnasending, það væri að minnsta kosti hægt að ganga þarna frá ákveðnum hlutum sem mundu gera það að verkum að það væri hægt að einbeita sér að öðrum. Þetta yrði til þess að leysa vanda margra, en því miður hefur sú ekki orðið raunin vegna framkvæmdarinnar. Þó að ýmsir hafi fengið leiðréttingu er það ekki í neinu samræmi við það sem efni máls stóðu til (Forseti hringir.) að mínu áliti.