139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

750. mál
[15:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir þó nokkru lagði ég skriflega fyrirspurn fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um endurútreikning gengistryggðra lána og ég er enn að bíða eftir svörum. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra frá ráðherranum hvenær hann hefur í hyggju að skila mér þessum svörum. Fyrirspurnin er í sex liðum og þar er meðal annars beðið um dæmi.

Það kemur fram í fréttatilkynningunni í framhaldi af niðurstöðu Raunvísindastofnunar og umboðsmanns skuldara að það sé ánægjulegt að þessar mismunandi reikningsaðferðir rúmist innan laganna. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Hafði ráðherra í hyggju að setja lögin þannig að þessar mismunandi reikningsaðferðir pössuðu inn í? Hvernig var því komið á framfæri við þingið? Hver er ástæðan fyrir því að það er ekki tilvísun til 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu?

Var hugsunin með þessu að annaðhvort gætu samningsskilmálarnir staðið eða þá 12. gr., ólíkt því hvað varðar aðrar greinar? (Forseti hringir.) Hvernig verður staða lántaka í framtíðinni ef fullnaðarkvittun gildir ekki lengur í íslenskum viðskiptum?