139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

750. mál
[15:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að hrósa hæstv. ráðherra fyrir skýr svör, ég held að svarið hafi verið alveg skýrt við fyrstu spurningunni, hvort hann væri sáttur við framkvæmd fjármálafyrirtækja. Hann er sáttur við hana, svarið er já. Og af hverju hefur ekki verið kveðið nánar á um framsetningu útreikninga í uppgjöri vegna þess endurútreiknings? Það er vegna þess að hann telur lögin svo skýr og að menn hafi farið eftir þeim. Í þriðja lagi spurði ég hvort ráðherra mundi aðhafast eitthvað frekar í þessum málum. Svarið var skýrt, nei.

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg skýrt, ef það var það ekki áður, að þessi lagasetning er fullkomið klúður fyrir lántakendur og ábyrgðin er á höndum hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar. Eins og kom fram í máli ráðherra voru þessi lög túlkun á dómi Hæstaréttar og hæstv. ráðherra getur ekki beint sjónum sínum að Hæstarétti. Hér er um að ræða lagasetningu af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar og hver sem vill getur skoðað lánareiknivélina á heimasíðu minni og séð hversu illa fólk fer út úr þessu vegna þess að ekki er tekið tillit til greiðslna inn á höfuðstól.

Nú er bara spurningin: Hvað getum við gert í þessu? Ég er með frumvarp í þinginu um breytingu á þessum lögum. Það er augljóst að þessi reikniregla sem er svo skýrt tekin fram í lögunum að það þarf ekkert að kveða nánar á um hana í reglugerð kemur illa út fyrir lántakendur. Um það er ekki deilt og það er á ábyrgð hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að reyna að bæta fyrir klúðrið (Forseti hringir.) og hugsa núna um hag lántakenda. Við munum aldrei fá efnahagslífið hér aftur af stað nema við tökum á þessum málum.