139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

skuldalækkun og ábyrgð á húsnæðislánum.

834. mál
[15:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta var merkileg ræða hjá ráðherranum, sér í lagi þegar litið er til þess að þarna talaði einn helsti ráðgjafi Íbúðalánasjóðs um nokkurra ára skeið.

Mig langar til að spyrja ráðherrann vegna þess að hann talar um eignarréttinn sem er varinn samkvæmt stjórnarskrá: Finnst honum eðlilegt að í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem 90%-leiðin er gagnrýnd mjög — ég ætla ekki að fara að rífast um rannsóknarskýrsluna — og gefið í skyn að hún hafi jafnvel komið hruninu af stað, en þá var ráðherrann jafnframt ráðgjafi hjá Íbúðalánasjóði, að farið sé fram með það núna að fólk skuldi 110% í íbúðarhúsnæði sínu? Hvernig er hægt að finna það út með prósentureikningi að maður skuldi 110% en ekki 100%? Er hann ekki hræddur um það að sú leið leiði til enn hærra falls en 90%-leiðin gerði?