139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

skuldalækkun og ábyrgð á húsnæðislánum.

834. mál
[15:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi athugasemd hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur átta ég mig ekki alveg á tengslunum við Íbúðalánasjóð eða 90% lán á sínum tíma. 110%-leiðin er tilraun til að lækka skuldastöðu sem er ósjálfbær og er umfram greiðslugetu og veðrými eigna. Hún takmarkast auðvitað við það að við ætlum lánastofnunum — og þá kemur aftur að svari við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar — að endurreikna kröfur sínar til sannvirðis. Við viljum að sannvirði krafna sé forsenda innheimtu. Við viljum ekki búa til sósíalisma andskotans, eins og ég hef lýst því, eins og tíðkast í Bandaríkjunum þar sem ríkið eyðir miklum peningum í að gera fólki kleift að borga af lánum sem eru kannski umfram 120 eða 130% af veðrými eigna. Það er fjármálakerfi sem leiðir til mikils ófarnaðar. Fjármálakerfið verður að horfast í augu við að eignavirði hefur rýrnað og þar með talið að virði krafna þeirra á hendur einstaklingum hefur rýrnað.

110%-leiðin er leið sem er mögulegt að fara fyrst og fremst vegna þess að það voru ákveðnir bankar sem voru búnir að telja þá leið skynsamlega umreikningsleið. Ákveðnir bankar hafa riðið á vaðið á viðskiptalegum forsendum og beitt þeirri leið. Hún stenst öll bankaleg viðmið en við höfum vissulega við það að glíma að sannfæra bæði Fjármálaeftirlitið og aðra eftirlitsaðila um að hún feli ekki í sér eftirgjöf innheimtanlegra krafna. Það byggjum við á því að umreikningurinn og núvirðingin séu óumflýjanleg vegna þess að það væri óeðlilegt og óraunhæft að ætla fólki að borga umfram 110%.

Við erum auðvitað á gráu svæði að því leyti að einstakar fjármálastofnanir (Forseti hringir.) geta haldið því fram að þær geti innheimt allt upp í topp, en það er reyndar mjög erfitt fyrir allar fjármálastofnanir landsins að halda því fram að það sé greiðslugeta fyrir (Forseti hringir.) nafnvirði allra krafna þeirra í dag. Á þeim grunni höfum við getað sannfært (Forseti hringir.) fjármálastofnanirnar og eftirlitsaðila um að umreikningurinn og núvirðingin sem felast í 110%-leiðinni séu réttlætanleg og skynsamleg og brjóti ekki (Forseti hringir.) gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.