139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ábendingar Ríkisendurskoðunar um mannauðsstjórnun.

616. mál
[15:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það hlýtur að vera markmið hvers fjármálaráðherra og þeirra sem bera helst ábyrgð á fjárreiðum ríkisins að stefna að auknum sveigjanleika í rekstrarumhverfi stofnana á vegum ríkisins að ríkið hafi ávallt á að skipa hæfustu starfsmönnum sem kostur er hverju sinni og ekki síst að fjármunir ríkisins séu nýttir á sem árangursríkastan og bestan hátt í þágu skattborgaranna og samfélagsins.

Frumvarp þessa efnis var lagt fram á sínum tíma af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Geir Hilmar Haarde. Það náði ekki fram m.a. vegna mikillar andstöðu af hálfu þáverandi stjórnarandstöðu. Það vill svo til að þeir sem voru hvað harðastir í andstöðu sinni við frumvarp sem tekur m.a. á áminningarskyldu og fleiru af ríkisins hálfu voru einmitt þeir sem sitja í ríkisstjórn, m.a. hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. innanríkisráðherra, og síðast en ekki síst hæstv. forsætisráðherra. Þetta var fólkið sem stoppaði það frumvarp. Vel kann að vera að það sé ýmislegt í því frumvarpi sem má endurskoða og endurbæta. Engu að síður held ég að þetta séu hlutir sem við verðum að fara mjög gaumgæfilega yfir og fá afstöðu hæstv. fjármálaráðherra við því að lagt verði fram frumvarp sem tekur nákvæmlega á þeim atriðum sem ég gat um áðan.

Nú liggur fyrir skýrsla Ríkisendurskoðunar, ekki frá stjórnarandstöðunni, um mannauðsstjórnun frá janúar 2011 en í henni segir — áður hafði Ríkisendurskoðun m.a. sagt nákvæmlega það sama um þessi atriði, að endurskoða þyrfti áminningarákvæði laganna, þau væru úrelt og barn síns tíma. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar koma fram ýmsar ábendingar um það sem betur má fara, m.a. í lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Hvenær og hvernig hyggst ráðherra fara eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar í skýrslu um mannauðsstjórnun frá janúar 2011 um að:

a. breyta þurfi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og einfalda reglur þeirra um starfslok ríkisstarfsmanna, þar með talið skyldu til áminningar,

b. veita ætti forstöðumönnum stofnana lagaheimild til starfslokasamninga við starfsmenn,

c. kanna þurfi hvort rétt sé að færa ákvæði starfsmannalaga í kjarasamninga,

d. auka þurfi aðstoð við forstöðumenn í starfsmannamálum?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli að fara eftir þessum tillögum og ábendingum Ríkisendurskoðunar í skýrslu um mannauðsstjórnun, ekki síst með tilliti til þess að það er mikil og hávær krafa um aukið aðhald hjá stofnunum. Með þessu er ég ekki að fella neinn áfellisdóm yfir forstöðumönnum og starfsmönnum stofnana, en engu að síður þarf að vera virkt aðhaldstæki, ekki aðhaldstæki sem á sér uppruna frá (Forseti hringir.) miðri síðustu öld.