139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eitt innheimtuumdæmi.

744. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í september árið 2010 kemur skýrt fram að unnt sé að nýta mannaflann sem starfar við innheimtu opinberra gjalda betur en nú er gert. Ríkisendurskoðun leggur til að landið verði gert að einu innheimtuumdæmi undir stjórn tollstjóra. Í skýrslunni kemur m.a. fram að innheimta skatta og annarra opinberra gjalda hér á landi heyrir undir fjármálaráðuneytið, eins og við þekkjum, en framkvæmdin er á hendi tollstjóra og 23 sýslumanna víðs vegar um landið. Í skýrslunni kemur fram að útistandandi kröfur ríkissjóðs 2010 voru um 222 milljarðar, þar af sjá tollstjórinn og sýslumennirnir í Kópavogi og í Hafnarfirði um 82% af innheimtunni. Þessi embætti hafa yfir að ráða eingöngu 40% af mannaflanum eða stöðugildunum. Þannig að 60% af stöðugildunum sem sjá um innheimtu opinberra gjalda sjá um að innheimta það sem er umfram 82%, þ.e. 18% af heildarfjárhæð útistandandi krafna.

Þess vegna mælir Ríkisendurskoðun eindregið með því, eðlilega og skiljanlega, að þetta verði skoðað og segir að unnt sé að auka skilvirkni innheimtunnar með því að nýta mannaflann betur og stofna eitt innheimtuumdæmi í stað 24 í dag, þ.e. tollstjóra auk 23 sýslumanna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hug á því að beita sér fyrir þessari hagræðingu í ríkisrekstri og betri nýtingu opinbers fjár og fara í það að sameina innheimtustofnanir landsins, þ.e. að tollstjóri fari með yfirstjórn og umsýslu á innheimtu á útistandandi kröfum.

Ég veit að þessi gamalkunnuga umræða kemur örugglega upp: Erum við að fara að fækka stöðum m.a. úti á landi eða ekki? Við sjáum af ágætri sameiningu annars staðar að hægt er að nýta mannaflann víðar og það er hægt að dreifa þessu. En það liggur alveg ljóst fyrir þegar maður les skýrslu Ríkisendurskoðunar að hægt er að auka skilvirkni og nýta fjármuni betur en gert er í núverandi innheimtukerfi.

Þess vegna vil ég gjarnan fá að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra og spyrja hvort hann muni beita sér fyrir því landið verði eitt innheimtuumdæmi á forsjá og ábyrgð tollstjóra í Reykjavík.