139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[16:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höfum tekið til máls undir þessum lið undir ýmsum formerkjum. Ég vil sérstaklega koma hingað upp, í ljósi þess dagskrárliðar sem var á undan fyrirspurn minni, og staðfesta það sem ráðherra sagði, ég fór línuvillt í þeim punktum sem ég var með. Það er alveg hárrétt hjá ráðherra, skýrslan kom út í mars á þessu ári, en athugasemdirnar hafa í raun legið fyrir mun lengur. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa svarað skilmerkilega þessum dagskrárlið áðan og liðkað fyrir dagskrá þingsins vil ég hvetja hann til dáða, að hann haldi áfram að skoða þessi mál. Ég vildi leiðrétta það sem kom fram hér áðan.