139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

hækkun skatta og gjalda.

832. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég hefði helst viljað að hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrirspurninni og rekti það fyrir okkur hvaða skattar hafa verið hækkaðir, hversu mikið og hvenær. Hluti af þessu er að fá yfirlit yfir það hvernig þessar hækkanir áttu sér stað. Mér nægja ekki heildartölurnar, það nægir ekki að vísa í heildarhækkanir sem hafa orðið á tímabilinu, því að hluti af vandanum er þessi viðvarandi óvissa. Menn mega alltaf búast við því að ríkisstjórnin fái nýja hugdettu í skatta- eða gjaldahækkunum. Ég velti því einnig fyrir mér hvort engar gjaldskrárhækkanir hafi orðið frá því þetta litla hefti, sem hæstv. fjármálaráðherra veifaði, kom út í fyrra. Varla birtast þar upplýsingar um hækkanir sem urðu á árinu 2011.

Hæstv. fjármálaráðherra getur lesið upp úr heftinu svo langt sem það nær en ég mundi gjarnan vilja að hann útlistaði það fyrir okkur hvaða skattar hafa hækkað, hversu mikið og hvenær.