139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

hækkun skatta og gjalda.

832. mál
[16:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég var á ákaflega kurteislegan hátt að vekja athygli á því að nákvæmt og sundurliðað svar við þessari fyrirspurn — algerlega eins og hún er borin fram — hversu oft hafa skattar og önnur gjöld hins opinbera verið hækkuð frá því í byrjun apríl 2009 og í hverju fólust hækkanirnar — liggur fyrir í þingskjali á yfirstandandi þingi. Ég tel að það sé kurteislegt að vísa þá í það. Ég var ekkert að segja að hv. þingmaður væri að spyrja um hluti sem hann hefði átt að geta verið búinn að kynna sér af því þeir lægju fyrir í prentuðu þingskjali og hefðu gert það mánuðum saman. En út af fyrir sig er það það sem þetta þýðir.

Þarna er talið nákvæmlega upp hvaða hækkanir urðu á árinu 2009 á grundvelli ákvarðana fyrri ríkisstjórnar sem hækkaði ýmis gjöld um áramótin 2008/2009, á grundvelli þess sem ný ríkisstjórn (Gripið fram í.) ákvað á miðju ári 2009 og kom til framkvæmda á síðari hluta ársins, aftur skattbreytingarnar á árinu 2010, gjaldskrárhækkanirnar og aftur breytingar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem urðu að veruleika 2011. Þetta er hér í töflum og þetta er sundurliðað eftir sköttum, nákvæmlega talið upp. (Gripið fram í.) Hækkun tekjuskatts, hækkun tryggingagjalds, hækkun ýmissa vörugjalda og gjaldskrárhækkanir, hækkun neðra þreps virðisaukaskatts, upptaka auðlegðarskatts, upptaka nýrra umhverfis- og auðlindaskatta og aðrir þættir.

Svarið er hér, herra forseti. Það liggur fyrir skriflega nú þegar í þingskjali á yfirstandandi þingi.