139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

flutningur skattskyldrar starfsemi úr landi.

833. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við ræddum um skattamál og ýmsar afleiðingar skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Eitt af því sem ég rakti áðan var hvernig stöðugar hækkanir og viðvarandi óvissa um hvert stefnir með skattkerfið fælir fjárfesta hugsanlega burtu. En það gerir meira en það. Það beinlínis hrekur fyrirtæki úr landi og jafnvel fólk í sumum tilvikum, það eru mörg dæmi um það. Nokkrir endurskoðendur hafa bent á að þau fyrirtæki sem hafa aðstöðu til séu mikið að velta fyrir sér og sum búin að láta verða af því að flytja starfsemi sína úr landi. Það á einnig við um hina ýmsu einstaklinga sem forða sér úr landi undan skattstefnu ríkisstjórnarinnar á sama hátt og Íslendingar forðuðu sér frá Noregi á sínum tíma og byggðu Ísland. Nú hefur þessi þróun snúist við. Einn ágætur norskur þingmaður benti mér á á ráðstefnu í Noregi að það væri til umræðu í þinginu þar að loksins væri straumurinn búinn að snúast og Íslendingar flyttust nú aftur til Noregs vegna þess að skattar væru orðnir óhagstæðari hér en þar.

Fyrst við erum komin í umræðu um Norðurlöndin, en ríkisstjórninni eru Norðurlöndin hugleikin og kallar sig stundum norrænu velferðarstjórnina, held ég að ríkisstjórnin mætti taka sér Svíþjóð til fyrirmyndar. Þar hafa menn snúið af þeirri braut skattahækkana sem var viðvarandi í landinu um tveggja eða þriggja áratuga skeið og minnast nú 8. áratugarins og þess 9. með hryllingi, enda hafa þeir séð að skynsamlegri og ábyrgari skattstefna hefur skilað sér í bættum lífsgæðum allra. Hér á landi er þróunin hins vegar öfug. Það hefur leitt til þess að fyrirtæki hafa flutt skattskylda starfsemi sína úr landi. Reyndar var umhverfið það stöðugt og hagstætt hér að erlend fyrirtæki sáu ástæðu til að skrá starfsemi sína hér sérstaklega til þess að borga skatta á Íslandi. Þessi fyrirtæki eru núna farin og með þeim milljarðar króna af skatttekjum ríkissjóðs.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hversu mörg fyrirtæki hafa flutt skattskylda starfsemi sína úr landi að öllu leyti eða að hluta frá árinu 2007? Hversu háar voru skattgreiðslur fyrirtækja sem nú hafa flutt skattskylda starfsemi úr landi árið 2007?