139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

flutningur skattskyldrar starfsemi úr landi.

833. mál
[16:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera stór munur á því þegar hæstv. ráðherra hefur ekki upplýsingarnar og því þegar hann nennir ekki eða telur það pólitískt klókt að svara þeim ekki. Það er nákvæmlega það sem gerðist í fyrra svarinu.

Það er mjög gott að pólitísk samstaða skuli vera komin um að við séum í samkeppni um fólk og fyrirtæki og þurfum þess vegna að vera með hagstætt skattumhverfi.

Ég kannast ekki við að menn hafi haft mikinn áhuga á að hafa hér skattaskjól eða skattasmugu. Við unnum hins vegar mikið að því að einfalda skattkerfið og lækka skatta til að halda í okkar fólk því að eins og hv. fyrirspyrjandi fór yfir er mikið um að fólk flytji eða fari með fyrirtæki til annarra landa. Við ættum að ræða hvort við ættum ekki að kanna það sérstaklega þannig að við hefðum haldbærar upplýsingar um ástæðu (Forseti hringir.) búferlaflutninga. Ég held að við séum ósammála um margt, en ég held að við séum sammála um að við viljum halda fólki og fyrirtækjum hér.