139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

flutningur skattskyldrar starfsemi úr landi.

833. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég held að það væri mjög æskilegt að fjármálaráðuneytið kannaði þetta og aflaði upplýsinga um flótta fólks og fyrirtækja frá landinu undan skattstefnu stjórnvalda. Endurskoðunarfyrirtæki hafa ágætisyfirsýn yfir þetta. Ég er alveg viss um að þau gætu aðstoðað fjármálaráðuneytið við að gera athugun á þessu og áhrifum þess.

En af því hæstv. fjármálaráðherra gaf í skyn að skattar væru enn þá miklu hærri í Svíþjóð en á Íslandi, vekur það athygli að mörg þessara fyrirtækja flytja einmitt til Svíþjóðar, fara þangað með starfsemi sína að hluta eða í heild. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað er það sem hrekur þau í burtu héðan? Er það stefna ríkisstjórnarinnar að einhverju öðru leyti? Mér skilst að yfirleitt gefi menn helst upp ástæðuna um hækkandi skatta en ekki síður óvissuna um skattstefnuna.

Það var rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um mikilvægi þess að við séum samkeppnishæf, en nýtt mat á samkeppnishæfni Íslands sýnir að við færumst áfram niður listann og erum komin niður í 31. sæti í samkeppnishæfni þjóða af 59 löndum, að mig minnir, eftir að hafa verið í 4. sæti. Sérstaklega erum við lágt skráð hvað varðar liði er snúa að efnahagsstefnu stjórnvalda. Þar erum við í sumum tilvikum í eða við botnsætið. Ef hæstv. fjármálaráðherra er alvara með það að við þurfum að huga að því að landið sé samkeppnishæft á sviði efnahagsmála og hafi möguleika á því að laða til sín eða halda fyrirtækjum og fólki þá virðist þurfa að gera töluverðar úrbætur á.