139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

umhverfismat á Vestfjarðavegi.

820. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ræði hér um mestu sorgarsögu í uppbyggingu vegamála á Íslandi á undanförnum árum. Hér vísa ég til uppbyggingar, eða skorts á uppbyggingu öllu heldur, í vegagerð á svokölluðum Vestfjarðavegi 60 sem er sorgarsaga sem ég hef stundum farið yfir úr þessum ræðustóli á Alþingi. Nú ætla ég eingöngu að ræða um vegagerðina frá Þorskafirði að Skálanesi og staðan er nákvæmlega sú að þar er allt í hífandi óvissu. Enginn veit hvert framhaldið verður. Hæstaréttardómur sem féll 2009 setti það mál allt saman í algjöra upplausn og óvissu og nú er mjög brýnt að höggva á hnútinn. Ég hafði forgöngu um það að flytja hér lagafrumvarp sem kvað á um að vegur á þessum slóðum yrði lagður til samræmis við úrskurð þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, sem var kveðinn upp í ársbyrjun 2007 sem Hæstiréttur dæmdi síðan ógildan án tillits til efnisatriða úrskurðarins. Hann dæmdi eingöngu á tæknilegum atriðum.

Það hafa verið gerðar breytingar á lögum um umhverfismat og því hefur verið haldið fram að reynandi væri að fara af stað með nýtt umhverfismatsferli sem gæfi þá möguleika á því að leggja veginn á þessum slóðum, láglendisveg, út Þorskafjörðinn með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar með landtöku skammt innan við Skálanes. Nú skal ég ekki fullyrða um það hver niðurstaðan verður á þessu máli, það er væntanlega líka í óvissu. Ég hafði skilið það svo að þegar dómurinn féll og menn höfðu farið yfir málið hefði verið talið skynsamlegt að hefja undirbúning að nýju umhverfismati, a.m.k. í öryggisskyni meðan verið væri að kanna aðrar leiðir og freista þess að leiða fram niðurstöðu í nýju umhverfismati sem fæli þá væntanlega í sér einhverjar breytingar á vegstæðinu, en fyrst og fremst með skírskotun til nýs lagaumhverfis sem gæfi færi á slíku.

Þess vegna ákvað ég að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort haldið hafi verið áfram undirbúningi að nýju umhverfismati vegna vegagerðarinnar á leiðinni Þorskafjörður/Skálanes á Vestfjarðavegi 60. Þetta er hluti af því að eyða óvissu. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt í umræðum um þetta mál, nú verður lögð fram ný samgönguáætlun í haust. Ég tel að annað sé algjörlega óviðunandi en að í þeirri samgönguáætlun komi fram skýr stefnumótun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um það hvernig háttað verði vegamálum á þessu svæði. Hér er gríðarlega mikið í húfi, hvorki meira né minna en framtíð byggðanna á sunnanverðum Vestfjörðum. Þess vegna er brýnt (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra skeri úr um það með hvaða hætti háttað verði vegagerð á þessum slóðum.