139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

umhverfismat á Vestfjarðavegi.

820. mál
[16:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð umhverfisráðherra sem heimilaði lagningu Vestfjarðavegar um Teigsskóg hefur ekki verið unnið að nýju umhverfismati fyrir þá sömu leið. Það er rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, um hluta Vestfjarðavegar ríkir óvissa vegna þess að um hann hafa staðið nokkrar deilur. Þar eru sjónarmið af ýmsum toga sem snúa að hagkvæmni, fjárhag og umhverfismálum. Ég tel mjög mikilvægt að reyna að ná sátt um þessar deilur. Við skýrðum frá því, ráðherrar í ríkisstjórn, þegar við sátum fund á Ísafirði fyrir fáeinum vikum að við hygðumst setja þetta mál í sáttaferli þar sem allir valkostir yrðu skoðaðir og leitað lausna um legu vegarins í samráði við heimamenn þar og tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem ég vísaði til áðan.

Ég sagði jafnframt á opnum fundi á Ísafirði við þetta tækifæri að það væri mikilvægt að við værum reiðubúin að hugsa alla hluti upp á nýtt, staðreyndin væri sú að við hefðum úr miklu minna fjármagni að spila en við gerðum fyrir fáeinum árum. Fyrir fáeinum árum vörðum við til samgöngumála yfir 30 milljörðum kr. á ári. Í ár eru það rúmlega 15 milljarðar, þar af 6 milljarðar til nýframkvæmda, þannig að ekki er þar saman að jafna. Sá kostur sem heimamenn vilja helst er dýrari en aðrir kostir sem hægt er að velja um. Síðan eru ýmis önnur sjónarmið en ég hef verið í samráði við Fjórðungssamband Vestfjarða um þetta efni, um það ferli sem við setjum þetta mál í. Ég hef í hyggju að halda vestur þegar þingi lýkur og vinna að því að koma þessu máli á réttan rekspöl.

Ég veit að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er einlægur áhugamaður um vegaumbætur á Vestfjörðum og hefur margoft barist fyrir samgöngubótum þar. Ég er honum sammála um það. Ég hef margoft sagt að mér finnist að það eigi að forgangsraða Vestfjörðum þegar kemur að samgöngumálunum, en þarna er óneitanlega erfitt mál við að glíma sem ég vil leggja mig allan fram um að reyna að finna lausn á.