139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fangelsi á Hólmsheiði.

855. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra um fangelsi á Hólmsheiði. Eins og við vitum þurfum við því miður á nýju fangelsi að halda og það hefur verið í undirbúningi og umræðu ansi lengi. Í Fréttablaðinu 20. desember á síðasta ári lýsti hæstv. innanríkisráðherra, þáverandi dómsmálaráðherra, því yfir að framkvæmdin gæti hafist á fyrri hluta næsta árs, þ.e. þessa árs. Ég vil þess vegna spyrja hver staða málsins sé því eins og við vitum er ástandið mjög slæmt.

Ég hef sjálfur heimsótt Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og þegar maður heimsækir húsið skilur maður af hverju mannréttindasamtök hafa gert athugasemdir við það. Þetta fornfræga hús má muna fífil sinn fegurri varðandi það hlutverk sem það gegnir núna. Það væri að vísu sérstakt fagnaðarefni ef þetta sögufræga og um margt reisulega hús væri nýtt sem annað en hegningarhús.

Það sem ég vildi spyrja, virðulegi forseti, er þetta:

Í fyrsta lagi, hver útbjó útboðsgögn fyrir byggingu fangelsis á Hólmsheiði?

Í öðru lagi, hvað er hlutur íslenskra arkitekta stór í þeirri vinnu sem er lokið?

Í þriðja lagi, hver er staða málsins og hvenær er gert ráð fyrir að fangelsið verði tekið í notkun?

Ástæðan fyrir því að ég spyr sérstaklega um arkitekta er einfaldlega sú að við þurfum að hugsa fyrir því að arkitektar eins og aðrir hafi verkefni hér á landi. Það er ekkert sjálfgefið. Ég minnist þess t.d. að Inga Jóna Þórðardóttir sem stýrði byggingarnefnd Landspítalans og heilbrigðisstofnana bjó þannig um hnútana að meiri líkur væru á því, þrátt fyrir að það stóra verkefni væri boðið út, að það mundi falla íslenskum arkitektum í skaut þar sem íslenska var tungumálið í útboðinu. Það var án nokkurs vafa mikið heillaspor. Nú er lítið um verkefni hjá íslenskum arkitektum og þess vegna þurfum við að horfa (Forseti hringir.) enn frekar til þessa.