139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fangelsi á Hólmsheiði.

855. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætlega skýr svör. Það er auðvitað vonbrigði að íslenskir arkitektar hafa ekki komið að þessari vinnu. Það væri kannski fróðlegt að vita hvaða kostnaður hefur hlotist út af dönsku arkitektastofunni ef hæstv. ráðherra getur svarað því en það kemur ekki fram í spurningunni þannig að ég hef skilning á því ef hann getur ekki svarað því hér og nú. Ég mundi þá leitast við að fá þær upplýsingar í kjölfarið.

Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég fór yfir áðan um verkefnaskort arkitekta en arkitektar eru stétt manna sem getur svo sem flust á milli landa, sem er að vísu gott fyrir hana en við viljum síður að ungt fólk flytjist héðan. Við þurfum að huga að því að skapa því gott umhverfi. Það er því mikil vonbrigði að íslenskir arkitektar hafi ekki komið að verkefninu fram til þessa. En hæstv. ráðherra segir að vonandi verði bragarbót þar á.

Sömuleiðis er slæmt að ekki sé ljóst hvenær gert er ráð fyrir að fangelsið verði tekið í notkun. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt eigum við eftir að ganga frá fjármögnun fangelsisins. Þannig er staðan. Þangað til því verkefni er lokið vitum við ekki hvenær framkvæmdir hefjast eða fangelsið verður tekið í notkun. Það er auðvitað miður.

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ef hann hefði upplýsingar um tölur varðandi kostnað við dönsku arkitektana væri vel þegið að fá þær upplýsingar.