139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Það er afleitt að í landi sem hefur svo margt að bjóða skuli þjóðin þurfa að dragnast með ríkisstjórn afturhalds og hafta, stjórn er lýtur forustu forsætisráðherra sem þrífst á deilum og átökum og dregur fæturna í öllum framfaramálum. Þessi ríkisstjórn nær varla saman um eitt einasta mál. Stjórnarflokkarnir eru ekki samstiga í orkumálum, gjaldmiðilsmálum, utanríkismálum eða yfir höfuð samtaka um mikilvægustu aðgerðir í efnahagsmálum. Allt of mikil orka fer í innbyrðis átök og menn falla fyrir borð einn af öðrum þar til stjórnin hangir á minnsta mögulega meiri hluta, ófær um að koma málum í gegn af eigin rammleik. Svo er gripið til gamalkunnugs stefs, að varpa sökinni á aðra, aðila vinnumarkaðarins eða stjórnarandstöðuna sem nú er kennt um tafir og vandræðagang við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ætli það sé ekki líka stjórnarandstöðunni að kenna að hvorki gengur né rekur í skuldamálum, að einungis 22 af 2.800 umsækjendum hafi fengið greiðsluaðlögun, að einungis lítið brot fyrirtækja sem áttu að komast á beinu brautina hafi fengið úrlausn sinna mála, að kosningar til stjórnlagaþings hafi klúðrast. Samningarnir við erlendu kröfuhafa bankanna eru þannig úr garði gerðir að eftir því sem heimilum og fyrirtækjum gengur betur næstu árin, þeim mun meira rennur beint í vasa erlendu kröfuhafanna, beinustu leið út úr landinu. Hvort skyldi allt þetta vera á ábyrgð stjórnarandstöðunnar eða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar?

Frú forseti. Ég fullyrði að enginn Íslendingur sættir sig við að búa í landi þar sem frumkvæði er drepið niður með aðgerðaleysi. Skattar draga máttinn úr fólki og fyrirtækjum, skuldir sliga heimilin og atvinnuleysi kyndir undir vonleysi. Vissulega þurfti um stund að herða ólina og takast á við erfiðar aðstæður, en reyndin er sú að sá tími er liðinn. Það er ekki endalaust hægt að bera fyrir sig kreppu og bankahrun fyrir tæpum þremur árum þegar við blasa á hverjum degi misnotuð tækifæri til að byggja upp að nýju, skapa störf og bjartari framtíð. Á meðan aðrar þjóðir sem glímdu við sambærilegan vanda, samdrátt og vaxandi atvinnuleysi eru að ná sér á strik sitjum við Íslendingar eftir.

Frú forseti. Undanfarið höfum við lifað tíma efnahagslegs samdráttar og óstöðugleika í stað vaxtar og uppbyggingar á öllum sviðum samfélagsins áður, tíma átaka og upplausnar í stjórnmálum í stað stöðugleika og stefnufestu á Alþingi áður, tíma uppgjörs, reiði og vonbrigða í stað jafnvægis og almennrar lífskjarasóknar áður. Þetta þarf ekki að vera svona deginum lengur, það er lífsspursmál fyrir okkur að brjótast út úr þessu ástandi og hefja kraftmikla lífskjarasókn, nýtt framfaraskeið á Íslandi.

Frú forseti. Við búum í landi sem er ríkt af gæðum. Á síðustu öld öðluðumst við sjálfstæði. Við höfum búið skynsamlega um hnútana í samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Við byggðum upp grunnatvinnuvegina og helstu innviði samfélagsins. Óhætt er að segja að allt hafi það gengið framar björtustu vonum forfeðra okkar. Okkur hefur vegnað best þegar Alþingi hefur verið í takt við þjóðina, skynjað á hverju við byggjum lífsafkomu okkar og möguleika til frekari framfara, í hverju sérstaða okkar er fólgin og hver arfur okkar er. En höfum jafnframt hugfast að stóru framfaraskrefin hafa verið stigin þegar meginstofnarnir samfélagsins, Alþingi og ríkisstjórn, hafa staðið traustum fótum. Því miður er því ekki til að dreifa við núverandi aðstæður.

Ákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sem þingfest var í gær varð ekki til að auka virðingu og veg Alþingis. Réttarhöldin yfir Geir H. Haarde verða þeim sem um þau véluðu til ævarandi skammar.

Frú forseti. Við erum ekki stór þjóð í samanburði við flestar aðrar. Hér er fámennt samfélag í strjálbýlu landi. Sumir kjósa að líta á þetta sem veikleika og sjá enga framtíð utan Evrópusambandsins. Staðreynd málsins er hins vegar sú að smæðin, einfaldleikinn og sveigjanleikinn ásamt með auðlindum landsins, menningu og mannauði, er okkar helsti styrkur. Mestar framfarir hafa orðið hér á landi þegar áhersla hefur verið lögð á að nýta tækifærin, beisla orkuna, hámarka afrakstur veiðanna við Íslandsstrendur og fjárfesta í menntun og velferð landsmanna. Nú þurfum við að ryðja úr vegi hindrunum fyrir nýfjárfestingar í orkufrekum iðnaði og skapa þúsundir nýrra starfa. Við höfnum því að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. Koma þarf súrefni til atvinnulífsins í landinu.

Landsvirkjun hefur kynnt áætlanir sem gætu komið Íslandi í fremstu röð á ný. Til þess að þau tækifæri og fjölmörg önnur verði að veruleika verðum við að þora að taka ákvarðanir, hafa kjark til að sækja fram og sýna áræði. Einungis þannig náum við vopnum okkar að nýju. Tilhneiging ríkisstjórnarinnar er að vera með puttana í öllum sköpuðum hlutum, hlutast til um hvernig fólk ráðstafar eignum sínum, setja höft og hömlur á fólk og fyrirtæki og leggja bönd á framtakssemi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin er allt að festa í klakaböndum.

2% hagvöxtur sem við horfum fram á segir okkur að hjarta atvinnulífsins slær, en afar hægt og veikt. Við getum ekki látið atvinnulífið fjara út. Án þess er engin velferð og án efnahagslegs sjálfstæðis er fullveldi okkar ógnað.

Góðir landsmenn. Framkvæmdaviljinn og frelsið er ekki það sem varð okkur að falli. Það var skortur á ábyrgð og eftirliti. Látum það ekki verða til þess að við hættum að sækja fram. Stöðnun er ekki svarið. Þvert á móti þurfum við að virkja fólkið í landinu til að koma okkur út úr vandanum.

Góðir Íslendingar. Ríkisstjórnin gumar af því að hér sé allt á réttri leið. En hver er staðan? Verðbólga virðist á uppleið að nýju. Hagvöxtur er langt undir því sem við þurfum á að halda. Ísland er í efnahagslegri kyrrstöðu og atvinnuleysi er í hæstu hæðum þrátt fyrir að þúsundir vinnufúsra handa hafi yfirgefið landið og leitað á önnur mið. Til að bíta höfuðið af skömminni er nú hart sótt að helsta atvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum. Það er ekki gert með aukna hagsæld í huga eða betri lífskjör þeirra hundruða fyrirtækja og þúsunda Íslendinga sem við greinina starfa því að ljóst er að yfirvofandi lög um stjórn fiskveiða munu kosta þjóðarbúið milljarða. Prófessor í hagfræði sagði í viðtali fyrir skemmstu að íslenska kvótakerfið væri eina kerfið sem Íslandi hefði tekist að byggja upp frá grunni sem væri á heimsmælikvarða, við værum fyrirmynd annarra þjóða, kvótakerfið væri merkilegasta framtak Íslands í skipulagsmálum, ekki síst fyrir það að framseljanlegar aflaheimildir hefðu aukið hagkvæmni kerfisins svo mjög en í miðri stórkreppu væri það stefna ríkisstjórnarinnar að skapa glundroða og gjaldþrot í sjávarútveginum sem væri helsti lykillinn að efnahagsbatanum. Sjávarútvegurinn er lykillinn. Sjáið nýjustu hagvaxtartölurnar, það er sjávarútvegurinn, grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, sem ber uppi þann litla hagvöxt sem hér mælist.

Frú forseti. Við erum hálfnuð á kjörtímabili þessarar lánlausu ríkisstjórnar. Án breytinga er ekkert annað fram undan en meira af því sama. Lífskjörin munu halda áfram að versna svo lengi sem sama braut er fetuð áfram. Við verðum að snúa af þessari braut og við verðum að spila úr þeim tækifærum sem hvarvetna blasa við. Stærsta hindrunin á þeirri leið er ríkisstjórnin og stefna hennar. Verkstjórnin er ónýt, ófriður ætíð valinn umfram sátt og það erum við, Íslendingar allir, sem greiðum fyrir þessa sjálfshátíð vinstri manna á valdastóli með verri kjörum, lengri kreppu, veikara efnahagslífi og minni velferð.

Ég segi: Hingað og ekki lengra, þessi ríkisstjórn verður að víkja.