139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ágætu tilheyrendur nær og fjær. Vorið hefur að sönnu verið kalt, ekki síst um norðan- og austanvert landið, en það er samt með ólíkindum að það skuli hafa farið svona algjörlega fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að það er komið vor. Það er svartasta skammdegi og biturt frost í hugarranni hans þegar hann fer yfir svið þjóðmála. Ég hef það á tilfinningunni að hann fylgist ekki nógu vel með fréttum því að hann virðist hvergi sjá neitt sem hægt er að hugga sig við. Ég prentaði að gamni mínu handa honum fjórar fréttir frá því í dag: „Íbúðamarkaðurinn að taka við sér“, „Hagvöxtur tekinn við af samdrætti“, „Jákvæð teikn í fyrsta gjaldeyrisútboði Seðlabankans“, „Ríkissjóður í startholum með dollarabréf“. Ég gæti tekið einar tíu í viðbót, bara af fréttavefunum í dag, þar sem í raun og veru eru teikn á lofti um betri tíma og bjartari horfur fram undan.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, má þó eiga það að hann er sjálfum sér samkvæmur þegar hann kemur með töfrabrögðin sín, það sem Danir kalla „tryllekunster“, því að hann er með þær kenningar að með einföldum brellum sé hægt að gera allt gott. Það er miklu skemmtilegra að hlusta á það en hina hryllilegu skammdegisræðu formanns Sjálfstæðisflokksins. En veruleikinn er ekki svona. Hann er sá að við urðum fyrir miklu áfalli, hér gengu í garð miklir erfiðleikar og það eru engin töfrabrögð til sem láta það hverfa. Það þarf að vinna sig út úr því, það kostar erfiði og úthald, en það er að gerast. Þannig er það.

Nú eru rúm tvö ár liðin síðan þessi ríkisstjórn tók við, kjörtímabilið hálfnað og það eru tímamót. Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengu skýrt umboð frá þjóðinni til að leiða hana út úr þessum erfiðleikum. Þá lauk tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem er orðinn nokkuð þekktur hér í landi, hefur marga fjöruna sopið og víða komið að óbjörgulegu búi hjá ríkjum í miklum erfiðleikum. Hvað sagði hann þegar hann kom til Íslands? Hann sagði: Hrunið á Íslandi er án fordæma.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom til valda 1991 talaði hann mikið um fortíðarvanda og fékk hann þó í arf þjóðarsáttina og lægri verðbólgu en verið hafði um áratugaskeið. Hafi það verið fortíðarvandi sem Sjálfstæðisflokkurinn tók við, hvaða nafn á þá að gefa búinu sem hann skildi eftir sig? Það þarf alla vega eitthvað sterkara lýsingarorð en uppdigtaðan fortíðarvanda.

Það er fullkomlega eðlilegt að við stöldrum við og spyrjum okkur eftir þessi tvö ár þegar kjörtímabilið er hálfnað og við stöndum á tímamótum bæði pólitískt og efnahagslega: Hver eru þau? Ég tel að tímamótin séu pólitískt þau að ríkisstjórnin stendur traustum fótum hafandi farið í gegnum einhverja erfiðustu tíma sem stjórnvöld á byggðu bóli hafa þurft að takast á við. Efnahagslegu tímamótin eru augljós, þau eru það. Í morgun kom Hagstofan með spá um hagvöxt sem sýnir okkur og staðfestir að hagkerfið er tekið að vaxa, einhverjar hæstu tölur á fyrsta ársfjórðungi sem við sjáum í Evrópu. Gaman væri að bera það saman við málflutning stjórnarandstöðu sem sagði að skattlagningaræði ríkisstjórnarinnar mundi kæfa allt í fæðingu, eða annarra þingmanna sem töldu að aðgerðir í ríkisfjármálum mundu dýpka kreppuna.

Nýlega hækkaði Efnahags- og framfarastofnunin OECD hagvaxtarspá sína fyrir Ísland á sama tíma og hún því miður lækkað hagvaxtarspár velflestra annarra Evrópuríkja. Þannig er það. Fasteignaverð hefur hækkað umtalsvert og veltan aukist mjög. Í maí síðastliðnum var 399 samningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst á móti 192 á sama tíma í fyrra. Það er 108% aukning. Er það hagkerfi á niðurleið? Aukin bílasala og nýskráningar bíla. Í janúar til maí voru nýskráðir 2.200 bílar á móti 997 á sama tíma í fyrra. Er það hagkerfi á niðurleið þar sem nýskráning bíla vex um 120%? Ferðaþjónustan, í maímánuði síðastliðnum fóru 37.200 erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð og Íslendingar eru á faraldsfæti í miklu ríkari mæli en fyrr. Er það eitthvað sem er á niðurleið? Nei. Væntingavísitala Gallups fór upp um 11 punkta í síðasta mánuði og hefur ekki mælst hærri síðan fyrir 2008 fyrir utan tvo mánuði. Kortavelta hefur aukist umtalsvert og sendir sömu skilaboð.

Í dag fengum við mjög góðar fréttir — ekki glöddust þeir yfir því hér forkólfar stjórnarandstöðunnar — að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar teiknar til þess að þorskafli verði aukinn um 17 þús. tonn á næsta fiskveiðiári. Það eru 7,5–8 milljarðar í viðbót í þjóðarbúið. Samfara góðum horfum um loðnuvertíð og ágætishorfum um að við fáum mikil verðmæti í gegnum manneldisvinnslu á makríl í sumar má gera sér góðar vonir um að verðmæti úr sjávarfangi fari vaxandi á síðustu mánuðum þessa árs og á hinu næsta.

Mikill árangur hefur náðst í ríkisfjármálum. Skuldatryggingarálag á Ísland fór í dag niður fyrir 200 punkta. Það er lægsta gildi sem við höfum séð síðan 2007. Er þetta allt saman ómögulegt, hv. þm. Bjarni Benediktsson? Er þetta ekki til að gleðjast yfir, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson?

Kjarasamningarnir sem hvorugur forkólfur stjórnarandstöðunnar nefndi á nafn eru auðvitað stórtíðindi og mjög gleðilegt ef við náum að bæta kaupmátt og sérstaklega hinna lægst launuðu og ríkið jafnar það í gegnum bætur almannatrygginga og atvinnuleysis. Umtalsverð kjarabót til tekjulægstu hópar samfélagsins mun vissulega taka í hjá ríkissjóði en það er gleðiefni að takast á við það vegna þess að kjarabæturnar koma til þeirra hópa samfélagsins sem mesta þörf hafa.

Skuldir ríkissjóðs eru að staðnæmast við mun lægra hlutfall en við töldum fyrir tveimur árum. Hreinar nettóskuldir eru rúmlega 40% af vergri þjóðarframleiðslu og brúttóskuldir að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum eru 80,5%. Það er akkúrat meðaltal skulda ríkissjóða í Evrópu. Það er ekki verra en það. Hvað segja menn um þetta? Eru þetta vondar fréttir?

Sjávarútvegsmálin hafa eðlilega verið mikið til umræðu. Það er rétt og skylt, þar eru stórmál á ferð. Það er alveg á hreinu að núverandi stjórnarflokkar hafa skýrt lýðræðislegt umboð og stuðning þjóðarinnar til að reyna að ná fram breytingum á því kerfi sem mikið ósætti hefur verið um. Það eru hlutir í því kerfi sem við viljum ekki og engin samstaða verður nokkurn tíma um. Við þurfum í fyrsta lagi að koma því á hreint að þetta sé sameign þjóðarinnar sem auðlind. Við viljum ekki horfa áfram upp á það að einstakir aðilar geti fénýtt aðgang sinn að þessari sameiginlegu auðlind og farið út úr greininni með stórar fjárhæðir og skilið þá sem eftir eru með meiri skuldir til að standa undir. Við viljum heldur ekki að menn geti fénýtt þennan tímabundna aðgang sinn þannig að aðrir þurfi að hafa fyrir því að veiða kvótann þeirra. Við viljum skapa sjávarútvegi traust og góð rekstrarskilyrði, búa vel að okkar sjómönnum. Við viljum tryggja byggðunum meira öryggi en í núverandi kerfi því að það verður aldrei samfélagsleg sátt um það á Íslandi að fótunum sé reglubundið kippt undan einhverri sjávarbyggð þar sem fólk hefur sett sig niður, byggt hús sín og bundið sínar rætur. Það verður ekki þannig. Á þessu þarf að taka.

Frumvörpin sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram fela í sér farveg til að leysa þessi mál. Þau eru grundvölluð á þeirri niðurstöðu sáttanefndar að við göngum frá málinu með nýtingarsamningum til afmarkaðs tíma og síðan hliðarráðstöfunum í pottum eða öðru kerfi. Við þurfum hins vegar að ræða, rökræða og eftir atvikum takast á um útfærslur í þeim efnum. Hvar liggja hófssamleg mörk í formi veiðigjalds, tímalengdar samninga, hlutfalls yfir í potta o.s.frv.? Það er úrlausnarefni til að lenda og við eigum að líta á það sem stóra sameiginlega áskorun sem þjóð að leysa það mál og reyna að láta þeim illdeilum sem staðið hafa hátt í þrjá áratugi linna. Það er hægt og það er farvegur fyrir það í þessum frumvörpum.

Umræðan um stjórnmál og þjóðmál á Íslandi er athyglisverð. Hún er dálítið tvískipt. Annars vegar og fullkomlega eðlilega ræðum við erfiðleikana sem við erum að kljást við og þeir eru til staðar og það er nóg af þeim og það er enginn vandi að fjalla um þá með gagnrýnum hætti. Verra er þegar ákveðin öfl beita kröftum sínum að því að rífa líka niður það sem gengur vel, þar sem við erum að ná miklum árangri, og brjóta okkur þannig niður. Við erum engu nær með slíku. Það eru að vísu að mestu leyti gamlir geðillir fauskar, fyrrverandi þetta og fyrrverandi hitt, sem skrifa og tala á þeim nótum. Við skulum ekki gera þann málflutning að veganesti okkar inn í sumarið. Við þurfum á bjartsýni og kjarki og trú á framtíðina að halda og það er engin ástæða til annars.

Ísland hefur allt sem þarf. Við erum ung, vel menntuð þjóð og eigum sterkt lífeyrissjóðakerfi þannig að aldurssamsetning okkar og lífeyrismál eru í góðum horfum til frambúðar. Við eigum mat, við eigum orku, við eigum vatn, við eigum landrými, við eigum öll þau gæði sem mannkynið mun mest þurfa á að halda á komandi áratugum. Það er bjart fram undan. (Gripið fram í.)