139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti og kæra þjóð. Þann 4. október sl. flutti forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, stefnuræðu sína. Við það tækifæri safnaðist gríðarlegur mannfjöldi saman á Austurvöll, krafðist siðbóta og raunverulegra lausna. Fólki ofbauð afgreiðsla þingsins á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sá tvískinnungur sem birtist í atkvæðagreiðslu um landsdóm sem nú hefur verið kallaður saman yfir einum af þeim fjórum sem greidd voru atkvæði um. Mörgum ofbauð að þingmenn og ráðherrar sem sátu jafnvel í hrunstjórninni sjálfri tækju þátt í atkvæðagreiðslu um félaga sína. Það þarf verulega firringu til að halda að það séu ásættanleg vinnubrögð.

Annað sem fólki ofbauð var ástandið í skuldamálum heimilanna. Stjórnvöld hrukku í gírinn og skipuðu nefnd. Svo var beðið og beðið, niðurstöðu var að vænta eftir helgi eða í næstu viku og vikurnar liðu án þess að nokkuð gerðist. Það var ekki fyrr en fólk var farið að undirbúa jólin og kaus að hugsa ekki um óbærilegt ástand skulda sinna að fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús.

Ef einhver hefði sagt mér eftir þau kröftugu mótmæli sem voru í byrjun þings að í júní árið 2011 sæti enn sama vanhæfa ríkisstjórnin án þess að hafa gert nokkuð til að mæta kröfum skuldsettra heimila annað en að þæfa málið í nefnd, hefði ég talið þann hinn sama eitthvað bilaðan. Hve lengi er hægt að misbjóða venjulegu fólki, fólki sem orðið hefur fyrir stórfelldum eignabruna og þurft að horfa á ævisparnaðinn sem það hefur lagt í heimili sitt fuðra upp í verðbólgubáli?

Fyrir nokkru var hér umræða um skýrslu sem fjármálaráðherra hafði laumað inn í þingið síðasta daginn sem leggja mátti fram þingskjöl til að tryggja að hún týndist nú örugglega í því pappírsflóði öllu saman. Hún fjallaði um endurreisn bankakerfisins og er merkileg heimild um það ferli. Það var verulega ógeðfellt að heyra fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, stæra sig af því að hafa endurreist bankakerfið á kostnað skuldsettra heimila. Ég hef enga trú á því að raunverulegur vilji hafi verið fyrir því í ríkisstjórn Geirs H. Haardes að leiðrétta skuldir heimilanna en sú leið sem valin var í upphafi útilokaði það ekki. Steingrímsleiðin er hins vegar leið kröfuhafanna, leið handrukkaranna.

Hagnaðartölur nýju bankanna eru innblásnar af uppreiknuðum lánasöfnum, enda eru mörg lánin mun hærri nú en þegar þau voru tekin þrátt fyrir allar innborganirnar. Frá hruni segjast nýju bankarnir þrír hafa hagnast um 139 milljarða. Það jafngildir rúmlega 5.500 25 millj. kr. íbúðum. Til samanburðar má nefna að fjárlög ríkisins á þessu ári eru 514 milljarðar og þar af fara 75 milljarðar í vaxtakostnað.

Og enn berast fréttir af misheppnuðum skuldaúrræðum ríkisstjórnarinnar. Nú hafa 2.813 sótt um greiðsluaðlögun en 10 mánuðum eftir stofnun embættis umboðsmanns skuldara hafa aðeins 22 lokið greiðsluaðlögun með samningi. Það er enn ein sönnun þess að hin sértæku úrræði ríkisstjórnarinnar í skuldamálum eru svo sértæk að þau gagnast eiginlega ekki neinum.

Þá hef ég enn ekki minnst á mál þeirra ólánssömu heimila sem voru með gengistryggð húsnæðislán. Jólagjöf þingheims til þeirra voru afturvirk lög sem juku greiðslubyrði sumra lántakenda verulega frá hinni stökkbreyttu martröð. Margra ára vextir upp á allt að 21 prósentustig bættust við höfuðstólinn. 26 millj. kr. lán tekið árið 2004 hækkaði til að mynda um 30 milljónir. Er nema von að útlendingar spyrji hvort hér sé virkilega ekkert fjármálaeftirlit?

Forseti. Við lifum á óvenjulegum tímum. Í hruni felast tækifæri og frelsi til endursköpunar, til að byrja upp á nýtt með hreint borð, ákveða byggingarefnið, hvað skuli byggja, hvernig og með hverjum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur unnið þrekvirki í því að klambra gamla Íslandi saman úr fúnum spýtum.

Í svona ástandi þarf Ísland á hetjum að halda. Nú reynir á fólkið því að stjórnvöld valda ekki hlutverki sínu. Það fylgja því nefnilega ekki aðeins réttindi að vera borgari heldur einnig skyldur og þegar stjórnvöld hafa villst svo af leið sinni að vonlaust er að þau rati heim aftur er það borgaraleg skylda okkar allra að standa upp og knýja á um breytingar með öllum tiltækum ráðum. Og Ísland á hetjur, rétt eins og Túnis og Egyptaland, þótt fleiri mættu láta sig málin varða og láta í sér heyra. Margir hafa staðið upp og sagt: Hingað og ekki lengra.

Venjulegu fólki blöskrar nefnilega sú forgjöf sem fjármálakerfið fær á kostnað okkar hinna og hetjur Íslands vinna að því að gera landið okkar aftur að bærilegum stað til að búa á. Að öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega þakka Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir starf þeirra. Ef ekki væri fyrir málefnalegan og vel rökstuddan málflutning þeirra væri staða heimilanna enn verri.

Forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er mikið fjallað um þá þöggun og skort á gagnrýnni hugsun sem var ríkjandi á árunum fyrir hrun. Fæstir þorðu að gagnrýna, benda á að keisarinn væri ekki í neinum fötum. Þeir fáu sem það gerðu voru hrópaðir niður af öllum fjölmiðlafulltrúunum, kynningarstjórunum og auðmönnunum. Ég hef miklar áhyggjur af því að sama meinsemdarástandið sé að taka sig upp. Fjölmiðlarnir eru laskaðir og hafa hvorki mannafl né fjármagn til að kryfja málin til mergjar. Hluti þeirra er í eigu voldugra hagsmunahópa sem hygla sínum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar varð háskólasamfélagið einnig fyrir harðri gagnrýni og of lítið virðist hafa verið gert til að bregðast við því. Undanfarið hafa borist af því fréttir að akademískar stofnanir og sérfræðingar innan háskólasamfélagsins treysti sér ekki til þess að gefa óháð og faglegt álit á þeim málum sem uppi eru í samfélaginu. Sérfræðingarnir eiga nefnilega líka fjölskyldur sem þeir þurfa að sjá fyrir og stökkbreytt húsnæðislán sem þarf að greiða af. Heiðarlegt, óháð álit gæti þýtt að viðkomandi sérfræðingur fengi ekki fleiri verkefni. Um það höfum við séð fjölmörg dæmi. Þá eru enn stöður innan háskólanna kostaðar af hagsmunaaðilum. Því er það engin furða að sérfræðiálit séu oft og tíðum einhliða og lituð af sérhagsmunum. Meðan svo er er erfitt að treysta nokkrum.

Góðir Íslendingar. Tíminn er skammur. Það er okkar að standa saman og krefjast réttlætis. Hugrekki er allt sem þarf.