139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Við efnum til þessarar umræðu á Alþingi í kvöld í skugga mikilla átaka og deilna um ýmis grundvallarmál. Við höfum tekist á í þessum sal um hvaða leið réttast sé að fara til að ná markmiðum okkar, að við Íslendingar verðum áfram í fremstu röð meðal þjóða. Við höfum deilt fram á nætur um forgangsröðun mála og við höfum gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir að tefla fram málum að því er virðist einvörðungu til að skapa ófrið og ágreining.

Ég hef furðað mig á því hvers vegna ríkisstjórn á svo viðkvæmum tímum lætur sér koma til hugar að ala á óvissu og óróa, ágreiningi og sundurlyndi, að hér skuli sitja ríkisstjórn sem þráast við að segja þjóðinni nákvæmlega hver staða þjóðarskútunnar er, að hér sé ríkisstjórn sem situr föst í fortíðinni eins og ræða fjármálaráðherrans áðan ber glöggt vitni um.

Við þurfum á því að halda, góðir Íslendingar, að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, takast á við fjárhagslega erfiðleika og taka ákvarðanir sem miðaðar eru út frá heildarhagsmunum okkar Íslendinga allra. Við eigum að horfa á þau einstöku tækifæri sem okkur hafa verið gefin og nýta þau og hætta að ala á ósætti.

Öllum er orðið fullljóst hvers konar óstjórn er hér. Það blasir við öllum hvers konar skortur á leiðsögn er hjá þessari ríkisstjórn og það er sorglegt að það skuli vera reyndasti þingmaður á Alþingi sem fer fyrir þeirri ráðherrasveit sem situr hér á bekkjunum fyrir aftan. Öll vitum við hvernig færi fyrir heimili sem svona er rekið, endalaus gauragangur og rifrildi við stóra sem smáa og enginn hefur hugmynd um á hverju blessað fólkið á að lifa.

Hæstv. fjármálaráðherra getur veifað blöðum hér en ekkert af því gengur eftir ef ríkisstjórnin ætlar áfram að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Eða ætlar ráðherrann að þakka sér gott ástand fiskstofnanna og þess vegna sé hægt að auka veiðarnar? Mikil eru þá völd hæstv. fjármálaráðherra.

Virðulegi forseti. Ég býst við að margir spyrji sig að því hvers vegna í ósköpunum þessi átök séu hér í þinginu, hverju þau skili í budduna þeirra, hvernig þau bæti hag þeirra og barnanna þeirra, hvernig þau skili þessari þjóð áfram. Svarið er að þrátt fyrir allt þetta trúum við því öll að Ísland hafi mikla möguleika til að sækja fram og ná hratt og örugglega í fremstu röð á ný. Við trúum því að hér séu möguleikar til að skapa góð lífskjör fyrir landsmenn alla. Við trúum því að hér sé áfram hægt að byggja á fjölbreyttri menntun sem aftur leiðir af sér frjóan jarðveg fyrir öruggan vöxt þjóðarbúsins. Við vitum að okkur voru gefnar gjöfular auðlindir sem við höfum ávallt nýtt með skynsömum hætti og eru sá grunnur sem við eigum að byggja á, en það gerist ekki nema menn fari að hugsa öðruvísi og því miður er enginn slíkur tónn í ræðu hæstv. ráðherra.

Fyrsta skrefið er að gjörbreyta vinnubrögðum hér og viðhorfum til þeirra verka sem bíða. Það verður að láta af þeim fráleitu vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð. Hvað á það að þýða að koma fram með hvert málið á fætur öðru óunnið, óhugsað og óþarft til þess að skapa sér tímabundnar vinsældir og kasta þar með fyrir róða efnahagslegum hag þjóðarinnar? Hvað á það að þýða að þykjast vita allt betur en hinir vísustu menn þegar kemur að því að meta efnahagsleg áhrif aðgerða, t.d. á sviði sjávarútvegsmála, og kæra sig kollótta, og láta sér detta í hug að koma fram með hugmyndir án þess að láta svo lítið að reikna út afleiðingar þeirra? Það er þjóðin sem tapar á þessum ómögulegu og hroðvirknislegu vinnubrögðum og hún á allt annað skilið. Þeir sem svona standa að málum eiga hins vegar að standa reikningsskil gjörða sinna.

Góðir Íslendingar. Þessari þjóð hefur farnast best þegar farið hefur saman langtímahugsun á sviði menntunar og hugvits sem og skynsamleg nýting auðlinda okkar, þegar orkan er beisluð og veiðarnar ganga vel, þegar ríkisafskipti og forsjárhyggja er í lágmarki og ekki síst þegar markmiðið er að leita lausna við úrlausn erfiðra ágreiningsmála, setja niður deilur að hætti siðaðra manna og vanda sig í hverju og einu viðfangsefni sem við er að etja.

Hitt er jafnvíst að með skammsýni er hægt að kippa fótunum undan nýtingu auðlindanna og vega þar með að efnahagslegri hagsæld og velferð þjóðarinnar hvort sem er á sviði menntamála, nýsköpunar eða heilbrigðismála. Allt það hvílir á þessum traustu undirstöðum sem okkur er ætlað að gæta að.

Þetta er erindið, góðir Íslendingar. Ég tala ekki við fólkið hér á bekkjunum til hliðar heldur við ykkur af því að ég veit að framtíð okkar getur verið björt ef rétt er á málum haldið. — Gleðilegt sumar.