139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:05]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti, góðir landsmenn. Það eru væntanlega fáir þingmenn á hinu háa Alþingi sem ekki rökstyðja stjórnmálaþátttöku sína með baráttu fyrir hugsjónum. En hvað eru hugsjónir? Hugsjónir eru ekki bara falleg ímynd eða hugmynd til að halda innblásnar ræður um á tyllidögum. Í hugsjónum felast markmið og sýn hvert skal stefna. Hugsjónafólk á sér þess vegna þá von að hugsjónirnar verði einhvern daginn að veruleika eða að minnsta kosti að sú veröld sem við byggjum færist nær ásættanlegu ástandi. Við komumst ef til vill ekki alla leið í fyrstu tilraun, en hverju skrefi nær hugsjóninni ber að fagna.

Ég man eftir hugsjónakonu sem barðist fyrir umhverfisvernd og var sökuð um að vilja flytja þjóðina aftur inn í torfkofana. Hún lagði áherslu á femínisma og réttindi samkynhneigðra en fékk bágt fyrir. Nú er staðan sú að eitt hennar helsta baráttumál, austurríska leiðin, verður brátt lögfest. Ein hjúskaparlög eru komin á og samkomulag hefur náðst um friðun á Langasjó. Ég vona að fólk átti sig á að við erum að ná þessum árangri vegna áralangrar baráttu Kolbrúnar Halldórsdóttur og annars hugsjónafólks, bæði hér innan þings og utan.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur verið gagnrýnd, og það mjög ómálefnalega á köflum — en fyrir hvað? Jú, fyrir það eitt að leyfa náttúrunni að njóta vafans, fyrir að sinna starfi sínu og sporna við því að ámátlegt jarm í einhæfum stóriðjukórnum ráði för í uppbyggingu samfélagsins líkt og áður.

Ýmsar hugsjónir femínista og umhverfissinna hafa þannig orðið að veruleika á þeim tveimur árum sem félagshyggjuflokkarnir hafa setið í meiri hluta. En hvernig hefur gengið að öðru leyti? Ég ætla ekki standa hér og reyna að búa til óraunhæfa glansmynd. Þessi tími hefur einkennst af þeim aðstæðum sem uppi voru og því erfiða búi sem tekið var við. Engin íslensk ríkisstjórn hefur nokkurn tímann þurft að fást við jafnrisavaxið verkefni. Má þar helst nefna erfiða stöðu ríkissjóðs, atvinnuleysi og síðast, en alls ekki síst, skuldavanda heimila og fyrirtækja sem er þungur baggi.

Ég skil vel að það getur verið erfitt að sætta sig við hve langan tíma sumar aðgerðirnar taka. Ég deili þeirri óþolinmæði á köflum þrátt fyrir að vera sjálf í hringiðu stjórnmálanna. En þrátt fyrir allt hefur náðst ótrúlegur árangur á ekki lengri tíma. Ég er meðvituð um að ýmislegt hefur eflaust mátt fara betur. Það er hins vegar ekki hægt að gera lítið úr þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur á ýmsum sviðum og miðar að réttlátara þjóðfélagi.

Táknmál hefur nú loks verið viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra og heyrnarskertra og því fagna ég svo sannarlega. Róttækar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu til að verja kjör þeirra tekjulægstu og dreifa skattbyrðinni á sanngjarnari máta en áður.

Í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla birtist ný menntastefna sem hefur meðal annars það markmið að styrkja einstaklinga til að vera gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Með þessum nýju námskrám birtist gjörbreytt gildismat.

Þegar austurríska leiðin verður samþykkt má loksins fjarlægja ofbeldismanninn af heimilinu í stað fórnarlambsins. Það er réttlætismál sem ekki má gera lítið úr. Það segir líka ýmislegt um fyrri ríkisstjórnir að málið hafi ekki hlotið brautargengi fyrr en nú. Það hefur verið kallað eftir þessum breytingum í áraraðir. Það segir allt um gildi þessarar stjórnar og þær hugsjónir sem hún heldur á lofti að það er loksins núna sem þessi mál komast í gegn.

En það má þó alltaf gera betur. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er tekið fram að Ísland skuli beita sér fyrir friði og afvopnun. Það er nokkuð sem ég er hjartanlega sammála. Það samræmist ekki því að styðja við aðgerðir árásarbandalagsins NATO í Líbíu. Reynslan kennir okkur að það er sjaldnast hægt að frelsa heilu þjóðirnar með því að láta sprengjum rigna yfir þær. Það eru heldur ekki til sprengjur sem drepa bara vont fólk og valda almennum borgurum hvorki skaða né hörmungum.

Vegna friðarmálanna langar mig að nýta tækifærið og leggja fyrir nokkrar tillögur að aðgerðum um næstu skref ríkisstjórnarinnar. Friðlýsum Ísland fyrir kjarnorkuvopnum, göngum úr NATO og stöðvum heræfingar sem fram fara undir merkjum loftrýmiseftirlits eða varnaræfinga.

Góðir landsmenn. Nú þurfum við að varða veginn til framtíðar. Við vitum öll hvert nýfrjálshyggjan leiddi okkur. Sú samfélagsgerð verður ekki endurreist. Höldum hugsjónum okkar á lofti og byggjum réttlátt, friðsamlegt og sjálfbært þjóðfélag.