139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ágætu landsmenn. Þegar kemur að því að ræða verk og verkleysi þessarar ríkisstjórnar er af nógu að taka. Þótt sumt hafi tekist vel er annað aðfinnsluvert, eins og gengur og gerist. Nægir þar að nefna t.d. Icesave-málið sem fyrir tilstuðlan þjóðarinnar sjálfrar hefur nú loks fengið farsælan farveg og nákvæmlega þann farveg sem Lee Buchheit lagði til í fyrstu heimsókn sinni hingað til Íslands sumarið 2009.

Önnur mál sem hafa fengið minni athygli en skyldi en koma í beinu framhaldi af hruninu og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og snúa meira að Alþingi sjálfu eru til dæmis frumvörp ríkisstjórnarinnar um rannsóknarnefndir, upplýsingalög, Stjórnarráðið, siðareglur, fullnustu refsinga og breytingar á embætti sérstaks saksóknara.

Sum þessara mála hafa verið samin og framreidd af embættismönnum Stjórnarráðsins sem margir hverjir voru sjálfir í ábyrgðarstöðum fyrir hrunið og höfðu aðkomu að þeirra tíma löggjöf og eftirfylgni hennar. Það hefur komið í ljós að sum þessara frumvarpa eru í litlu samræmi við þá alvarlegu atburði sem gerðust hér fyrir hrun og ollu því, og oft eru þau í mjög litlu samræmi við niðurstöður skýrslna sem frumvarpshöfundar segjast styðjast við. Það er athyglisvert að lesa saman skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrsluna Samhent stjórnsýsla og bera svo innihaldið saman við sum þessara frumvarpa þar sem niðurstöður eru oft mjög útvatnaðar og jafnvel andstæðar niðurstöðum skýrslnanna.

Frú forseti. Hér hefur orðið á alvarlegur misbrestur og þar sem dæmin um þetta eru mörg er mikilvægt að þingið sé meðvitað um að áhrif embættismanna á löggjöf eru miklum mun meiri en æskilegt getur talist. Hér er ekki við ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra að sakast enda erfitt að gera sér í hugarlund að þeir lúslesi frumvörp með skírskotunum til frumgagna og heimilda, enda ekki þeirra verk. Fyrir árvekni þingmanna bæði í umræðum og nefndastarfi hefur hins vegar tekist að laga sum þessara mála.

Ég leyfi mér að nefna nokkur mjög mikilvæg mál sem allsherjarnefnd hefur þurft að taka í yfirhalningu eftir að hafa verið dæmd nánast ónýt af umsagnaraðilum utan embættismannakerfisins. Hér er um að ræða frumvarpið um rannsóknarnefndir, frumvarp til upplýsingalaga, frumvarp um Stjórnarráðið og frumvarp um siðareglur Stjórnarráðsins. Frumvörp þessi komu flest inn í þingið frá ríkisstjórninni og hefðu að óbreyttu leitt til þess að margar ábendingar og tillögur sem komið hafa fram um úrbætur með tilliti til hrunsins hefðu orðið að engu. Það hefur svo eingöngu verið með dyggum stuðningi formanns allsherjarnefndar, hv. þm. Róberts Marshalls, sem allsherjarnefnd hefur getað spyrnt við fótum og lagfært frumvörpin.

Oft hefur heyrst að heppilegra væri að gerð frumvarpa færi fram á Alþingi en ekki hjá framkvæmdarvaldinu. Af fréttum af stjórnlagaráði að dæma virðist sem tillögur þess um skarpari aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds innihaldi ákvæði í þessa veru. Mikilvægt er að Alþingi taki einnig þetta frumkvæði og stefni að stóreflingu nefndasviðsins sem hefði þá á sinni könnu gerð allra frumvarpa sem leggja á fram en með samvinnu og samráði við framkvæmdarvaldið og þá sérfræðiþekkingu sem þar er eins og þörf krefur.

Frú forseti. Senn líður að þinglokum þó að allt sé enn óljóst um hvenær þau verða nákvæmlega þegar þessi orð eru töluð. Sá ósiður sem viðgengist hefur á Alþingi undanfarin ár og áratugi að afgreiða löggjöf á færibandi á hvaða tímum sólarhringsins sem er hefur viðhaldist þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um brýnar úrbætur á starfsháttum þingsins. Er skemmst að minnast þess að í gærkvöldi kom þingmaður ekki upp orði fyrir hlátri þegar hann ætlaði að ræða um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Skilaboðin eru einfaldlega enn þau að Alþingi eigi helst að vera mannað fólki sem komið er yfir miðjan aldur og hefur engar eða sem minnstar skyldur við fjölskyldu sína. Vissulega hefur forseti þingsins staðið föst fyrir þegar kemur að því að standa við fyrir fram gefna dagskrá um þinghlé og er það vel, en minna fer fyrir því að staðið sé við áætlanir um framlagningu mála þannig að nægur tími gefist til umræðu um þau. Fyrir lá í lok síðustu viku þegar fjórir þingdagar voru eftir að enn ætti eftir að afgreiða 60 mál sem væri sátt um og 25–30 til viðbótar sem ekki væri sátt um.

Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á lagasetningu með svona aðferðum og stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir því að sum mál eru einfaldlega þannig vaxin að þau þurfa langa og ítarlega umræðu. Grundvallarbreytingar á til dæmis Stjórnarráðinu eða auðlindamálum taka langan tíma og eiga að gera það því að hér þarf að vanda vel til verka.

Frú forseti. Ekki er hægt að taka til máls um störf ríkisstjórnarinnar án þess að nefna það að nú tveimur árum eftir kosningar þar sem allir flokkar gáfu loforð um víðtækar lýðræðisumbætur hefur ekkert orðið um efndir í þeim efnum. Frumvörp ríkisstjórnarinnar um persónukjör hefur í tvígang dagað upp í nefnd og það síðasta sem frést hefur af þeim er að hæstv. innanríkisráðherra ákvað að leggja þau ekki fram aftur á þessu þingi. Engar tillögur eða undirtektir hafa heldur komið fram um aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna. Frumvarp Hreyfingarinnar um það mál hefur verið lagt fram í þrígang en alltaf verið svæft í nefnd.

Brýnt lýðræðisumbótamál sem heldur hefur ekki verið fylgt eftir er breyting á lögum um fjármál stjórnmálaflokka, en enn megum við búa við það að stjórnmálaflokkar mega taka við fjárframlögum frá lögaðilum, ekki er skylt að upplýsa um öll fjárframlög og stjórnmálaflokkum er gróflega mismunað þegar kemur að úthlutun almannafjár til stjórnmálastarfsemi. Í því efni hefur Hreyfingin lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fjármál og fjármögnun stjórnmálasamtaka þar sem gagnsæi er leiðarljósið og lokað er fyrir aðkomu lögaðila, þ.e. fyrirtækja og samtaka þeirra, að fjármögnun stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Þetta er mjög mikilvægt skref, ekki síst í ljósi þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um samspil stjórnmála og viðskiptalífsins þar sem fjöldi þingmanna þáði fúlgur fjár frá fyrirtækjum. Nýjar upplýsingar sem komið hafa fram um fjárstuðning sjávarútvegsfyrirtækja við stjórnmálaflokka gefa tilefni til rækilegrar umhugsunar um það hvaða hagsmuna menn eru hugsanlega að gæta hér á Alþingi og sýna skýrt að kominn er tími til að skera á þessi tengsl. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Að lokum langar mig að nefna það mál sem hvað hæst hefur borið á góma á Alþingi undanfarnar vikur en það eru frumvörp um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar okkur í Hreyfingunni varð ljóst að tillögur ríkisstjórnarinnar í þeim efnum væru að stórum hluta merkingarlausar ákváðum við að leggja fram okkar eigið frumvarp. Frumvörp ríkisstjórnarinnar ganga of skammt, eru of flókin og snúast um að viðhalda víðtækri sérhagsmunagæslu annars vegar og veita ráðherra mikið miðstýringarvald hins vegar.

Frumvarp Hreyfingarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu gengur í megindráttum út á þrennt, sterka byggðatengingu þar sem öllum aflaheimildum er úthlutað aftur til sjávarbyggðanna í samræmi við það sem var áður en framsal aflaheimilda var gefið frjálst, jafnræði og arðsemi þar sem allar aflaheimildir þurfa að fara á uppboð og allir landsmenn geta boðið í heimildir. Sanngirni er svo þriðji meginþátturinn þar sem fjármál sjávarútvegsfyrirtækja eru endurskipulögð og þær skuldir sem til eru komnar vegna kaupa á aflaheimildum eru færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð sem verður greiddur niður með sérstöku tímabundnu gjaldi á sölu aflaheimilda.

Frumvarpið er í anda stefnu Hreyfingarinnar um að allar náttúruauðlindir skuli vera í eigu þjóðarinnar. Það á enginn náttúruna og þær auðlindir hennar sem við búum svo vel að annar en þjóðin öll og það á enginn að fá úthlutað af þessum sameiginlegu auðlindum nema gegn sanngjörnu gjaldi þar sem allir geta staðið jafnt að vígi.

Þjóðin verður að ná saman um þetta grundvallaratriði. Það mun hins ekki gerast nema utan áhrifasviðs sérhagsmunaafla og það verkefni að skera á áhrif sérhagsmunaafla á lagasetningu, svokallaðan lobbíisma, er eitt af þeim mikilvægari sem Alþingi getur tekið sér fyrir hendur. Það þýðir hins vegar að kjósendur verða að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum næstu tíu árin eða svo.